Fyrr í vetur kom upp atvik í skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum þar sem einn ferðahópur varð uppvís að skrílslátum og óhóflegri drykkju í skálanum. Jafnframt óku einstaklingar úr viðkomandi hópi á bílum sínum að lauginni í Landmannalaugum yfir mjög viðkvæmt svæði innan Friðlandsins. Umræddir einstaklingar hafa nú beðist afsökunar á hegðun sinni.
Sem betur fer eru atvik af þessu tagi sífellt að verða sjaldgjæfari enda stærstur hluti ferðamanna til mikils sóma í ferðum sínum og umgengni við landið. Innan ferðafélaga, t.d. FÍ, Útivistar, Ferðaklúbbsins 4x4, LÍV, Landssambands hestamanna og fleiri aðila er stöðugt unnið að því að leiðbeina og upplýsa ferðamenn um margvíslega þætti sem hafa þarf í huga þegar ferðast er um landið. Þetta er mikilvægt hlutverk þessara félaga og reyndar um leið allra félagsmanna í þessum félögum sem miðla af reynslu sinni og þekkingu til óreyndari ferðamanna.
Ferðafélag Íslands vill hvetja ferðamenn í ferðum sínum um hálendið að sýna virðingu og tillitssemi, bæði við aðra ferðahópa, sem og í umgengni í skálum og ekki síst í samskiptum við náttúru landsins.
Það er góð regla að ganga ávallt frá í skála með þeim hætti eins og maður vill sjálfur koma að honum.
Ferðafélag Íslands