Umhverfisstofnun í samráði við fulltrúa Veiðifélags Landmannaafréttar og fulltrúa samgöngu- og fjarskiptanefndar Rangársþings Ytra, leggur til að veginum verði lokað tímabundið og skoðað að færa veglínu af viðkvæmu gróðursvæði á ógróið svæði í samráði við sveitarfélag og veiðifélag Landmannaafréttar. Þar sem vegurinn liggur að Sauðleysuvatni er mjög viðkvæmt gróðurlendi þar sem hætta er á umtalsverðu jarðvegsrofi vegna bílaumferðar, vegurinn er að breikka á köflum þar sem hjólför eru orðin of djúp til að auðvelt sé að aka í þeim. Vegurinn er óljós á kafla sem veldur því að ekið er utan hans. Einnig er ekið inn á aflagða vegslóða sem liggja út frá umræddum veg þrátt fyrir lokunarmerki.
Úttekt Umhverfisstofnunar á svæðinu 19. júní, 2019.
- Það er hætta á verulegum skemmdum á gróðri, jarðvegsrofi og breikkun á veg.
- Um er að ræða viðkvæma náttúru, akstur utan vega vegna jarðvegsrofs og óskýran vegkafla.
- Til þess að hægt sé að koma í veg fyrir skemmdir þarf að loka veginum tímabundið og taka til athugunar að færa veginn af viðkvæmasta gróðursvæðinu út á ógróið svæði í næsta nágrenni, gera veginn greinilegri og setja upp skýrari merkingar við aðra lokaða vegslóða sem liggja út frá núverndi veg.
Svæðið sem um ræðir er vegur að Sauðleysuvatni.
- Vegurinn liggur að mestu um gróið svæði sem er mosa og grasi vaxið. Myndast hafa djúp hjólför í brekkum sem veldur því að í leysingum verður umtalsvert jarðvegsrof þar sem vatn skolar burt jarðvegsefnum og hjólförin dýpka á hverju ári.
- Þar sem hjólförin eru dýpst þar myndast ný hjólför og á endanum verða þau einnig djúp sem veldur keðjuverkun á breikkun vegarins.
- Þar sem vegur endar er ekkert afmarkað bílastæði sem veldur því að ekið er um stórt svæði. Einnig er vegur óljós á kafla sem veldur því þeir sem ekki þekkja til vita ekki hvar á að aka.
- Nú fer umferð um svæðið hratt vaxandi þar sem megin ferðamannatíminn er að ganga í garð og mikilvægt að bregðast við sem fyrst áður en umferða eykst enn frekar.
- Mikilvægt er að endurskoða legu vegarins sem liggur að mestu um gróið svæði. Þá þarf að stoppa jarðvegsrof í brekkum með því að stöðva frjálst rennsli vatns eftir rásum hjólfara.
Myndir af umræddum vegslóða að Sauðleysuvatni.