Þjórsárver- náttúruperla á heimsvísu

Þann 12. ágúst mun Ferðafélagið fara í árlega ferð í Þjórsárver. Þetta er ferð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.  Enn eru sæti laus í ferðina.

Þjórsárver – 11. og 12. ágúst.
Tilgangur ferðar og fræðslufundar er að kynna fólki Þjórsárver án þess að leggja upp í margra daga erfiða ferð yfir jökulvötn.

Laugardaginn 11. ágúst, fræðslufundur í Risinu í  Mörkinni 6 frá kl. 13:00.
Boðið verður upp á fræðslufund þar sem fararstjórar munu fjalla um náttúrufar, lífríki og menningu í Þjórsárverum í máli og myndum.

Sunnudaginn 12. ágúst, brottför frá Reykjavík kl 8:00, brottför frá Árnesi 9:30.
Gengið verður um austur hluta Þjórsárvera undir leiðsögn sérfræðinga og leiðsögumanna. Tóftir af kofa Eyvindar og Höllu verða skoðaðar og farið inn í Þúfuver þar sem finna má sífrera rústir og fjölskrúðugt gróðurfar.

 

Þann 12. ágúst mun Ferðafélagið fara í árlega ferð í Þjórsárver. Þetta er ferð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.  Svæðið er víðáttumesta gróðurvin á landinu, þar hafa fundist 167 tegundirháplantna og 244 tegundir skordýra.   Þjórsárver eru mjög mikilvæg heimkynni fjölda lífvera sem þrífast ekki í auðn og á öðrum stöðum hálendisins. Þar er einnig að finna mesta varpland heiðargæsar í heiminum en þar má einnig finna aðra fugla s.s. rjúpu, heiðlóu, kjóa, kríu og fleiri tegundir.

Svæðið mótaðist af ísaldarjökli og er berggrunnurinn er að mestu basalthraun, jökulberg, sandsteinn og móberg. Það er bæði jökulvatni og lindarvatni að þakka að Þjórsárver eru til. Þar er bæði að finna ár, læki, tjarnir og polla. Í lækjunum má finna hornsíli og krabbadýr í tjörnunum. ´

Svæðið hefur verið friðlýst frá árinu 1981.

Þrjár þjóðleiðir lágu um svæðið og víða má sjá móta fyrir fornum reiðgötum. Útileigumenn héldu einnig til á svæðinu og er Fjalla-Eyvindur og Halla mörgum kunn. Talið er að þau hafi verið á svæðinu á árunum 1765 til 1772. Líklegt er að þau hafi byggt sér fleiri en einn íverustað enda sagt að Eyvindur hafi hvergi unað hag sínum betur en þar.