Þórmörk - Landmannalaugar - frásögn frá 1953

ÞÓRSMÖRK-Landmannalaugar 1953.

 

Einhvern tíma vetrar 1952-1953 fór að sækja á okkur Vilhjálm Lúðvíksson (VKL), skólafélaga í MR og í Háskóla Íslands, vin, veiði- og ferðafélaga, að ganga úr Þórsmörk í Landmannalaugar.  Við vorum þá á 5. vetri í lagadeild Háskóla Íslands og höfðum tekið þá ákvörðun að ljúka em-bættisprófi í janúar 1954.  Sú ákvörðun var notuð sem átylla og afsökun fyrir því, að vinna ekki sumrið 1953 en stunda þess í stað lestur og prófundirbúning.  Okkur veittist auðvelt að sannfæra okkur um, að fyrst við værum svona duglegir og hugmiklir við námið, þá ættum við skilið að taka okkur nokkurra daga frí um sumarið til að hrinda hugmyndinni um ferðina í framkvæmd.

 

Ákveðið var, að Þórunn Guðnadóttir (TG), bekkjarsystir úr MR48 og heitkona mín, færi með okkur í ferðina.  Undirbúningur var nokkur, kortaskoðun og einhver bókalestur.  M.a. fórum við í skóverslun Lárusar G. Lúðvígssonar við Bankastræti og ræddum við Ingólf Ísólfsson göngugarp.  Hann hafði gengið þessa leið, a.m.k. hluta hennar, en ekki vissum við þá um neinn annan, sem gæti leiðbeint okkur.  Hann gaf okkur góð ráð, m.a. um Emstrujökul syðri.  Hann sagði jökulinn auðveldan yfirferðar, „eins og Bankastrætið“, sagði hann og benti út um glugga verslunarinnar.  Þann skriðjökul yrðum við að fara yfir til að komast fyrir upptök Syðri Emstruár, sem var með réttu talin óvæð á þessum árstíma, enda engin brú á henni þá frekar en á öðrum ám á leiðinni.

 

Um ferðabúnað þarf ekki að hafa mörg orð.  Við áttum engin sérstök föt eða búnað til slíkrar farar og ekki voru fjárráð til að kaupa ferðabúnað.  Tínt var til það, sem við áttum af góðum fötum, hlý nærföt (ull?), stakkar (anorakar) og ein regnkápa, sem TG fékk að láni.  Gamlir skíðaskór urðu að duga og gerðu það, svona nokkurn veginn.  Engir mannbroddar en lína til að binda okkur saman á jöklinum.  Nokkuð góður áttaviti var með í för, kort Landmælinga í 1:100.000, enginn hæðarmælir.  Myndavél (6x9) með svart-hvítri filmu, fengin að láni, var með í för og urðu vondar myndir þokkaleg heimild en allt of fáar.  Tjaldið var enskt, eign foreldra minna, gamalt en gott, enginn botn né himinn og rúmaði þrjá með sæmilegu móti.  Engar vindsængur né annað til að liggja á.  Nestið var ágætur skrínukostur, en ekki man ég eftir neinum tækjum til að elda (var primus?), né til að eta af eða með.  Bakpokar voru litlir og gamlir og ekki vatnsheldir en þó með grind og svefnpokar þungir.

 

Ásbjörn Magnússon var mikill ferðafrömuður á þeim tíma og rak ferðaskrifstofu (Orlof).  Hann auglýsti ferð í Þórsmörk um helgi verslunarmanna þá um sumarið.  TG og ég fengum far með honum inn í Þórsmörk.  VKL komst ekki þá en gerði ráðstafanir til að fá sig fluttan inn eftir á mánudeginum.  Einnig pöntuðum við far með Ferðafélagi Íslands heim frá Landmannalaugum viku seinna.  Farið var frá Reykjavík eftir hádegi á laugardegi.  Einn (eða tveir) eins drifs rútu-bílar fluttu farþegana, en 10 hjóla hertrukkur flutti farangur.  Ferðin gekk vel og var ekið yfir Krossá og slegið tjöldum í Langadal.  Ekkert hús var þá í Þórsmörk og ekki í Básum, en sá staður var nánast óþekktur þá. Daginn eftir var farið í Stakkholtsgjá, gengið á Valahnjúk og fleira skoðað. Á mánudeginum fór ferðahópurinn aftur til Reykjavíkur, en við TG urðum eftir ein í Þórsmörk.  Þá fluttum við tjald okkar og farangur í Hamraskóga, tjölduðum þar í skóginum við yndislega fjallasprænu með þessu tæra vatni, sem hvergi finnst nema í óbyggðum.  Síðan fórum við aftur yfir í Langadal og biðum komu VKL.  Undir kvöld kom hann og hafði fengið einhvern kunningja á Selfossi til að flytja sig inn yfir Krossá til okkar.

 

Allt gekk upp fram að þessu og eftir þetta á ótrúlegan hátt í ferðinni, sem lagt var í með lítinn og ófullkominn útbúnað, litla þekkingu á landslagi og aðstæðum, engan fjarskiptabúnað, enga skála á leiðinni, engar brýr á ánum og engar líkur á mannaferðum á okkar leið fyrr en komið yrði í Landmannalaugar.  Bjartsýni og kjarkur réði öllu við undirbúning ferðar og í ferðinni allri, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, bæði fyrirséða og ófyrirséða.  Þegar VKL var kominn í leitirnar, fórum við í tjaldstaðinn góða í Hamraskógum og gistum þar í okkar litla tjaldi um nóttina.

 

Næsta morgun, þriðjudag, tókum við saman farangur okkar og lögðum af stað.  Veður var mein-laust, dálítil rigning og lítil fjallasýn.  Við vorum hvert með sinn bakpoka, svefnpoka og föt, nesti var deilt niður á okkur, en tjaldið munum við VKL hafa borið til skiptis, bundið á bak-pokana.  Þröngá var stokkin milli kletta án þess að vaða, en Ljósá var vaðin; ég með TG á bakinu.  Við vissum, að við yrðum að fara fyrir upptök Syðri Emstruár upp á skriðjökulinn, og því lá beinast við að stefna þangað og fara yfir Langhálsinn og beint á skriðjökulinn.  Við töldum léttara að krækja fyrir vestan hálsinn, þó lengra væri og gerðum það.  Lítið var stoppað á leiðinni að skriðjöklinum, en áður en lagt var á hann, áðum við góða stund og fengum okkur bita af okkar skrínukosti.  Síðan var lagt á jökulinn og fyrir upptök árinnar.  Það gekk vel, sprungur ekki djúpar og auðvelt að krækja fyrir þær.  Ekki þótti okkur jökullinn þó líkjast Bankastræti.  Engir voru mannbroddar, en gengið var í línu þar sem ástæða þótti til.  Vel gekk að komast af jöklinum, og var nú aftur bitið nesti og andað létt með skriðjökulinn að baki.  Ekki man ég nú að lýsa leiðinni nánar, en mig minnir, að hún væri vandræðalaus, þangað til við komum að Nyrðri Emstruá.  Við höfðum reiknað með að geta vaðið hana, svo við þyrftum ekki að fara aftur upp á jökul.  All mikið vatn og mórautt var í ánni og gekk seint að finna stað til að vaða.  Allt gekk þó að lokum; ég óð á undan en VKL og TG leiddust yfir á eftir.  Vorum við berfætt?  Nú gekk allt að óskum norður að Bláfjallakvísl.  Hún var meinlaus með þægilegum sandbotni og var vaðin fyrirstöðulaust.  Þegar yfir var komið var ákveðið að tjalda á bakka árinnar og gista þar um nóttina.  Veður var enn meinlaust, ekki sérlega bjart, en úrkomulaust.  Upphaflega höfðum við ætlað okkur að komast í Hvanngil, en þá var Kaldaklofskvíslin eftir og nokkuð víst, að gamli leitarmannaskálinn í Hvanngili væri óhæfur til gistingar.

 

Að morgni miðvikudags var tekið upp eftir góða nótt á bökkum Bláfjallakvíslar.  Nú var vaðin Kaldaklofskvísl með þægilegum sandbotni nokkru ofar en bílavaðið og göngubrúin eru nú.  Kofinn í Hvanngili reyndist hvorki vatns- né vindheldur.  Við áðum utandyra við skálann góða stund og átum nesti.  Upp úr hádegi lögðum við af stað inn eftir Hvanngili.  Við gengum inn í botn Hvanngils og síðan upp brattan í stefnu milli Ófæruhöfða og Útigönguhöfða.  Bratt var upp og seinlegt, en undir kvöld var tjaldað efst uppi í Kaldaklofi með Háskerðinga í baksýn í góðu veðri.  Tjaldað var á mosató, sem fékk nafnið Tótutorfa.  Þarna fór vel um okkur í góðu veðri og reyndi ekki á lélegar hælafestingar vegna blíðunnar.

 

Þrátt fyrir góða nótt var ekki sofið lengi, en aldrei mun gleymast fegurð öræfanna við sólarupp-komu í 1200 m. hæð yfir sjávarmáli kl. 03-04 að morgni fimmtudags.  Líklega hefur okkur fundist, að einhver veðrabrigði væru á ferðinni, og því var ákveðið að taka saman í skyndi án þess að eta ærlegan morgunmat og drífa okkur niður í Hattver til að hvíla okkur betur þar og nærast.  Þetta kostaði okkur að vísu að lækka okkur niður í 700 m. hæð og klífa svo upp aftur verulega, þegar kæmi að Þrengslun í Jökulgili, enda vissum við að sjálf Þrengslin yrðu okkur tor-fær.  En Hattverið freistaði, og fyrir þeirri freistingu féllum við.  Þegar þangað kom, slógum við upp tjaldinu, átum okkar skrínukost og hvíldum okkur í 1-2 klst.  Síðan var haldið niður Jökul-gilið, en þegar við komum að Þrengslunum var ljóst, að við áttum tveggja kosta völ.  Annar var sá, að vaða Jökulgilskvíslina ótal sinnum, en til þess vorum við vanbúin enda mikið vatn og mórautt í kvíslinni.  Við völdum því hinn kostinn, að klífa upp brekkurnar og freista þess að fylgja brúnum Jökulgilsins niður í Landmannalaugar.  Þetta var mikið basl og tafsamt en tókst.  Undir kvöld náðum við loks í Laugar eftir 3ja daga ferð.  Við vorum glöð og montin af frammi-stöðu okkar, en ekki mátti tæpara standa með veður, því nú brast á SA-átt með mikilli rigningu og roki, og  var Jökulgilskvíslin eins og hafsjór landa á milli.  Farið var í að þurka ferðabúnað, sérstklega gönguskó, sem höfðu fengið grófa útreið.  Gekk það vel, en þó voru gönguskór ver á sig komnir eftir ógáfulegar þurkunaraðferðir.  Svo var ekki neitt að gera annað en að njóta lífsins og skoða sig um eftir því, sem veður og aðstæður leyfðu.  Gengið var á Bláhnjúk, út á Frosta-staðaháls og fleira.  Elsti leitamannakofinn, sem hlaðinn var úr hraunhellum og torfi af forfeðrum og frændum TG, vakti upp ýmsar hugrenningar um ferðir og aðbúnað þeirra manna, m.a. Ingvars á Bjalla, sem þar stóðu að verki.  Vangaveltur um fátæklegan ferðaútbúnað okkar urðu nú að engu.

 

Á sunnudeginum fengum við svo far til Reykjavíkur með Ferðafélagi Íslands, eins og um hafði verið samið.  Gekk sú ferð að óskum.