Þórunnarbúð - ný aðstaða fyrir skálaverði í Laugafelli

Vígsla skálavarðarhúss í Laugafelli og Sviðamessa

Enn einu stórvirki FFA er lokið með smíði nýs varðarhúss auk gistiaðstöðu í Laugafelli. Hilmar Antonsson vígði nýtt og glæsilegt varðarhús og gaf því nafnið Þórunnarbúð. Laugardaginn 11. september var haldið af stað frá Ferðafélagi Akureyrar inn á öræfi. Tilefnið var tvíþætt: vígja átti nýtt varðarhús í Laugafelli og svo að halda Sviðamessu, sem er uppskeruhátíð velunnara FFA. Lagt var af stað frá Strandgötu 23, húsi Ferðafélagsins, kl. 11 með 40 manna rútu frá SBA og ekið inn Eyjafjörð og fararstjórinn var Ingvar Teitsson. Gott veður var og gekk ferðin upp eftir vel þótt vegurinn væri ekki góður á köflum. Kom hópurinn í Laugafell upp úr kl. 13. Síðan var hið glæsilega hús sem smíðað var á Akureyri af félögum í FFA undir öruggri stjórn formannsins og yfirsmiðs Hilmars Antonssonar vígt. Á eftir var boðið upp á léttar veitingar. Í tilefni dagsins kom Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og færði okkur kveðju og góðar gjafir frá FÍ, Íslandsatlas og Hálendi Íslands . Síðan hófst Sviðamessan með áti gríni og glensi sem stóð fram á nótt undir stjórn Helgu Guðna. En látum myndirnar tala sínu máli.