Tindfjallaskáli kominn aftur heim

Tindfjallaskáli er kominn á sinn stað á ný efst í Tindfjöllum eftir snöfurlega endurbyggingu sem fór fram síðastliðið ár á plani við Kirkjusand í Reykjavík. Skálinn á sér merka og langa sögu en félagið Fjallamenn sem upphaflega reisti hann var stofnað 1939, fyrir réttum 70 árum. Skálinn hefur verið í umsjá Íslenska alpaklúbbsins frá 1979 eða í rétt 30 ár. Því fer vel á því á þessi tímamót skuli marka glæsilega endurbyggingu skálans.

Félagið Fjallamenn var stofnað af frumkvöðlinum Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og hann teiknaði skálann sem var reistur árið 1945 í sjálfboðavinnu. Þórður Þorsteinsson trésmíðameistari var yfirsmiður og hjó hann grind skálans í Reykjavík úr harðfuru sem rak á Skógafjöru.
Skálinn er 22 fermetrar og rúmar 12-15 manns í gistingu eftir því hve þétt er setið. Starfsemi Fjallamanna dróst mjög saman eftir lát Guðmundar 1963 og lagðist að heita má niður um 1970.
Tindfjallaskáli hefur um áratugi verið athvarf og leikvöllur fjallamanna en Tindfjöllin eru vinsæll vettvangur æfingaferða fyrir björgunarsveitir og klifrara. Þar hafa því margir helstu harðjaxlar í þeirra hópi stigið sín fyrstu skref. Það var því að vonum gleðiefni þegar hópur sem kallaði sig Vini Tindfjallaskála varð til innan Íslenska Alpaklúbbsins fyrir rúmu ári og hópurinn hefur nú lokið verki sínu með sóma. Skálinn hefur verið endurbyggður í upprunalegri mynd og er ekki að efa að margir hlakka til endurfunda við þennan ágæta gististað á komandi vetri.

Tindfjallaskáli

Tindfjallaskáli var fluttur á sinn stað með bíl frá HSSR og hér sést gamli góði skálinn síga af palli á sitt forna stæði.