Toppaselfie í hverri ferð

,,Þetta er bara gaman og það er ekki nauðsynlegt að þekkja neinn eða kunna neitt sérstakt enda eru margir í hópnum að taka sín fyrstu skref á fjöllum," segir Vilborg Arna Gissurardóttir sem ásamt Tómasz Þór Verusyni heldur utan um dagskrá Ferðafélags unga fólksins og leiðir allar göngur félagsins.

Ókeypis í allar dagsferðir

Ferðafélag unga fólksins var sett á laggirnar á síðasta ári en í ár er í fyrsta sinn full dagskrá hjá félaginu sem er hugsað fyrir allt ungt fólk á aldrinum 18-25 ára. Félaginu hefur verið mjög vel tekið, fastur kjarni fólks hefur mætt í allt sumar og þátttakan eykst hratt. Það kostar ekkert að taka þátt í dagsferðum félagsins en það þarf að panta og borga fyrir lengri ferðir þar sem gist er yfir nótt og mögulega ferðast með rútu áleiðis á áfangastað.

,,Þessi félagsskapur er auðvitað sérstaklega hugsaður fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á hvers konar útivist og hreyfingu og vill kynnast öðrum með sama áhugamál," segir Vilborg Arna. ,,Munurinn á þessum ferðum og öðrum ferðum Ferðafélags Íslands er að þarna er fólk að ferðast með öðrum sem eru á svipuðum aldri og á sama róli. Við erum líka að bjóða upp á mjög fjölbreytta dagskrá af alls konar ævintýraferðum, þ.e. ekki bara gönguferðir heldur líka t.d. hjólaferðir og hellaferðir."

Pub quiz og toppaselfie

Vilborg Arna segir að hópurinn sé afar duglegur að fara í leiki og þrautir. Spurningaleikir eða pub quiz eru vinsælir og auðvitað séu alltaf góð verðlaun í boði. Að auki hefur myndast sú hefð að hópurinn tekur alltaf toppaselfie í hverri ferð.

FI_Ung_4.jpg

Hún segir að eftirminnilegasta ferð Ferðafélags unga fólksins hingað til hafi verið nýleg helgarferð þegar 25 manns gengu yfir Fimmvörðuháls og gistu svo í Langadal í Þórsmörk. ,,Þetta var alveg ótrúlega skemmtileg ferð. Það náðu allir svo vel saman og svo var bara létt og skemmtileg grill- og partýstemning í Langadal," segir Vilborg.

Þeim sem vilja slást í hópinn er bent á að fylgjast með á fésbókarsíðu Ferðafélags unga fólksins eða kíkja á dagskrána á heimasíðu Ferðafélags Íslands. Framundan er til dæmis gönguferð um Laugaveginn sem farin verður 11. ágúst og svo fullt af spennandi dagsferðum eins og fjallahjólaferð um Jaðarinn og gönguferð á Keili.