Trúss í ferðum komið úr böndunum.
Trússferðir hafa notið vaxandi vinsældum undanfarin ár. Í þessum ferðum er farangur og vistir fluttur á milli staða en göngufólk gengur aðeins með léttan dagpoka með nesti og hlífðarfatnaði.
Vinsældir trússferða eru eðlilegar. Þær gefa fleirum kost á að ferðast um svæði með þægilegum hætti og njóta útivistar og náttúru. Þrátt fyrir að trússferðir séu allra góðra gjalda verðar má segja að þær hafi smám saman farið úr böndunum hjá ferðahópum hér á landi. Sterk tilhneiging er hjá ferðamönnum að taka allt of mikið með sér af vistum. Mörg dæmi eru um að í 20 manna ferðahópi í viku sumarleyfisferð hafi búnaður og vistir verið 2 3 tonn. ..Trússurumhafa fallist hendur þegar hlaða á vistir um borð í báta, bíla eða rútur. Í einhverjum tilfellum hafa farþegar í ferðum tekið með sér hægindastól, hljómborð og tölvur. Oft hefur það tekið 2 3 klst að hlaða vistirnar um borð. Þá hjálpast menn að og telja það ekki eftir sér að bera allt um borð þegar verið er að leggja af stað. Algengt er svo þegar ferð er að ljúka að menn klóri sér í höfðinu þegar verið er að bera allt til baka um borð og þá stundum helmingurinn ónotaður.
Farangurinn í þessum ferðum er eitt, maturinn er annar kapítuli. Auðvitað er gaman að gera vel við sig og hafa góða máltíð í ferðinni en þegar reiddir eru fram 3 4 rétta lúxusréttir mörg kvöld í röð, betri og veglegri en fá má á fínustu veitingastöðum, þá má spyrja hvort menn séu ekki aðeins búnir að tapa sér. Lúxusferðir eru sannarlega ein tegund af því sem er í boði í ferðaúrvalinu en þegar flestallar ferðir eru orðnar að lúxusferð þá erum við kannski búin að missa sjónar á tilganginum.
Í sumarleyfisferðum Ferðafélags Íslands er í mörgum tilvikum ferðast um óbyggðir og eyðisvæði og þá gefst fólki kostur á að upplifa náttúruna með öðrum hætti en dags daglega og þá komast menn í snertingu við uppruna sinn. Hluti af því að upplifa náttúruna, söguna og menninguna er einfaldleikinn, nægjusemi og hófsemi, sem og virðing fyrir náttúrunni. Þá upplifa menn einnig frelsið, í margvíslegri merkingu þess orðs. Meðal annars frelsi og hvíld frá því neyslusamfélagi sem við búum í.
Með góðum undirbúningi og fyrirgrennslan er í mörgum tilvikum hægt að njóta af því sem matarkista náttúrunnar býður upp á. Einnig er tilvalið fyrir ferðafólk að nýta sér sem mest mat úr heimabyggð. Það er bæði fjölbreytilegt, fróðlegt og skemmtilegt og eykur tengsl við þjónustuaðila heima í héraði. Nú þegar nýir tímar blasa við okkur þá er gott að endurskipuleggja aðeins allt það sem við tökum með í sumarleyfisferðina.
Páll Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands