Tveir vinningshafar frá FÍ Landvættum

Fimmtán FÍ Landvættir kláruðu Bláalónskeppnina um helgina og hafa þar með lokið tveimur af þeim fjórum þrautum sem þarf að klára til að öðlast sæmdarheitið Landvættur. Tvær úr hópnum gerðu sér lítið fyrir og hirtu fyrsta sætið, hvor í sínum aldursflokki.

Æfingahópur FÍ Landvætta snýst um fjölbreytta líkamsrækt með áherslu á útivist og langtímamarkmið. Þátttakendur æfa saman til að klára fjórar þrautir á einu ári, þ.e. skíðagöngu, hjólreiðar, útisund og fjallahlaup. Til að verða Landvættur þarf að ljúka þessum fjórum þrautum á einu ári en það þarf hins vegar ekki að vera innan sama almanaksárs, aðeins innan 12 mánaða, svo í raun er hægt að byrja að reyna sig við þessar þrautir hvenær ársins sem er.

Fyrsti viðburðurinn í ár var Fossavatnsgangan, 50 km keppni á gönguskíðum, sem fram fór á Ísafirði fyrstu helgina í maí. Um liðna helgi var svo keppt í 60 km fjallahjólreiðum, svo kallaðri Bláalónskeppni, þar sem hjólað er frá Hafnarfirði í Bláa lónið um Vigdísarvelli og Suðurstrandaveg.

Keppendur í Bláalónskeppninni voru yfir þúsund talsins og allir þeir fimmtán FÍ Landvættir sem hófu keppni luku henni með glæsibrag. Tvær úr hópnum gerðu sér meira að segja lítið fyrir og sigruðu sína aldursflokka. Sigrún Sigmundsdóttir varð fyrst allra kvenna 19-29 ára á tímanum 2:30:38 og Elfa Eyþórsdóttir varð fyrst kvenna 60-69 ára á tímanum 3:05:10.

Næsta Landvættaþraut verður 23. júlí þegar keppt er í 2,5 km sundi í Urriðavatni skammt frá Egilsstöðum og svo lýkur viðburðarríku æfingaári með 33 km Jökulsárhlaupi þann 6. ágúst.

Allar frekari upplýsingar um æfingahópinn FÍ Landvætti má fá á skrifstofu FÍ í síma 568 2533.

LVmark.jpg LVveisla.jpg