Tvö tilfelli hafa komið inn á borð Umhverfisstofnunar nú í haust þar sem fólk hefur sýkst af sundmannakláða eftir að hafa farið í heitu laugina í Landmannalaugum. Kláðinn hefur komið upp oftar en einu sinni áður og árin 2003 og 2004 fengu þúsundir sundgesta sýkingu. Var hún þá rakin til einnar andarkollu sem hafði verpt við baðstaðinn og alið upp unga sem allir reyndust smitaðir.
Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri Umhverfisstofnunar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að þótt sýkingin sé ekki talin hættuleg þá valdi hún fólki miklum óþægindum.
Í grein Karls Skírnissonar, starfsmanns Tilraunastöðvarinnar á Keldum, um sundmannakláða kemur fram að lirfurnar sem valdi sýkingunni séu fuglasníkjudýr og hafi aðeins fundist í stokköndum og duggöndum hér á landi. Lirfurnar hiki ekki við að bora sig inn í líkama spendýra eigi þær kost á því. Verða þá til kláðabólur þegar ónæmiskerfi mannslíkamans nær að stöðva lirfurnar. Sýni menn hins vegar ekki ónæmisviðbrögð hafa lirfurnar náð að smjúga óáreittar inn í líkamann. Þær ná þó aldrei að þroskast eðlilega heldur drepast fljótlega.
Hákon segir að starfsmenn Umhverfisstofnunar fylgist með sýkingum sem tengist Landmannalaugum, enda sé svæðið hluti af friðlandi sem stofnunin beri ábyrgð á. Til að reyna að stöðva útbreiðslu sýkinga í vatninu hefur stofnunin reynt að koma í veg fyrir að þessar tvær andategundir hafi viðveru í Landmannalaugum. Eru þær veiddar á þeim tíma sem heimilt er að veiða þær, en Hákon bendir á að um sé að ræða mjög veik dýr ef þau eru smituð.
Smit sem þessi geta komið upp í öllum náttúrulaugum þar sem þessar aðstæður eru fyrir hendi, það er ef þessar tvær tegundir anda eru á svæðinu.
Sýkingarnar geta komið upp á hvaða árstíma sem er samkvæmt rannsóknum sem Karl hefur gert á sundmannakláða og öndunum sem bera lirfurnar. Auk þess sem sýkingin kom upp árin 2003 og 2004 hefur eitthvað borið á henni síðan og varaði Ferðafélag Íslands meðal annars við að nokkur tilfelli hefðu komið upp árið 2009.