Umhverfisspjöll við Sogalæk við Trölladyngju

Ómar Ragnarsson skrifar á bloggsíðu sinni þennan texta:

Umhverfisspjöll eru mismunandi mikil, ekki aðeins miðað við mikilvægi minjanna, heldur ekki síður eftir því, hvort þau eru afturkræf eða óafturkræf. '

Í flestum tilfellum er hægt að hlaða vegg á borð við vegginn við Húsmúlarétt, upp á ný og verður það vonandi gert. Algerlega óþörf spjöll hafa nýlega verið unnin hafa verið við svonefndan Sogalæk, sem kemur volgur út úr Sogunum, litfegursta gili á Suðvesturlandi við vesturhlíð Trölladyngju. 

Til að sjá jafn litfagurt gil þarf að fara austur í Friðland að Fjallabaki.

Án nokkurrar umfjöllunar há Skipulagsstofnun eða Umhverfisstofnun fengu virkjanafíklar að umturna einstaklega fallegri gönguleið upp með Sogalæknum.

Ég sýndi þessa gönguleið í Stiklum fyrir aldarfjórðungi og fékk ekkert nema hrós fyrir það þá, - hvað það væri nú stórkostlegt að eiga svona náttúruperlu og geta notið þess að komast í stuttri fjarlægð frá Reykavík út í dýrð hinnar óspilltu og fögru náttúru. 

Hinn volgi lækur liðast framhjá gíg með grónum sléttum botni, þar sem eru rústir Sels, og þekki ég ekki annan slíkan stað á Íslandi. 

Í dag fæ ég jafnvel að heyra það hjá sama fólkinu og hældi mér fyrir 25 árum hvað ég sé mikill öfgamaður að hafa viljað varðveita þetta ósnortið.

Ragnar Reykás lætur ekki að sér hæða ! 

DSCF0120

Myndirnar tvær af Sogunum hér á síðunni eru teknar í nóvember og litadýrðin nýtur sín því ekki. Stefni að því að birta betri myndir síðar.  

Í fyrsta lagi átti alls ekki að leyfa tilraunaborun þarna. Það var búið að bora nóg þarna skammt frá. 

En í öðru lagi var auðvelt að bora tilraunaholu með skáborun og þar með þurfti ekki að leggja að henni verktakaveg, sem ylli neinum spjöllum þarna. 

Í þess stað var vaðið með jarðýturnar inn í græna, gróna hlíð við op Soganna og sargað inn í hlíðina 3000 fermetra svart borplan.

Í ofanálag var lagður vegur fyrir trukkana á bakka Sogalækjarins og gönguleiðinni tortímt.

Ég ætla síðar að blogga um það þegar ég fór með þáverandi umhverfisráðherra á slóðir þarna skammt frá til að líta á ljót sár eftir vélhjól í grasi, sem nú eru horfin.

Um það gerði ég fréttir tvívegis þar sem slík spjöll voru réttilega fordæmd en ekki var við það komandi að ráðherrann sæi af hálftíma til að fara í ökuferð til að kynna sér miklu verri spjöll sem ekki verða afmáð.

Minni síðan á að hægt er að stækka myndirnar hér á siðunni með því að smella á þær í tvígang.

Það á einkum við um tvær neðstu myndirnar sem eru loftmyndir af fyrirhuguðu virkjunarsvæði í Gjástykki sem á eftir að toppa þetta allt saman hvað snertir umhverfisspjöll miðað við þann óvissa og í besta falli litla ávinning sem felst í því að skapa 20 störf í verksmiðju í 80 km fjarlægð með hugsanlegri orku af svæði, sem gæti gefið margfalt fleiri störf í Mývatnssveit ef það yrði látið ósnortið.  

P. S.

Í athugasemdum við þennan pistil er bent á ljósmynd af veginum við Sogalækinn þegar verið var að gera hann. Borplanið er raunar enn verri skemmd.

En slóðin á myndina er:

http://www.flickr.com/photos/arnitr/104594598