Í tilefni af degi umhverfisins 25. apríl ætlar Ferðafélag Íslands að blása til umhverfisviku dagana 25. apríl – 2 maí. Markmið umhverfisviku Ferðafélags Íslands er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál, stuðla að bættri umgengni við náttúru Íslands og hvetja félaga til að tileinka sér vistvæna lifnaðarhætti.
Í umhverfisvikunni býður Ferðafélag Íslands upp á fjórar skipulagðar umhverfisgöngur þar sem við beinum sjónum okkar að matarsóun, plastmengun, loftslagsmálum og grænni ferðamennsku. Þar að auki ætlum við að halda skiptimarkað með útivistaföt, pub-quiz og fyrirlestrakvöld svo eitthvað sé nefnt. Einnig hvetjum við alla til að taka þátt í „Stóra plokkdeginum“ sem verður 28. apríl.
25. apríl: Setning umhverfisviku
Ganga umhverfis Elliðaárdal og súpa í boði Vakandi
Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands leiðir göngu um Elliðaárdal. Vakandi býður göngufólki upp á heita súpu í lok göngu. Vakandi eru samtök sem vilja stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla. Sérstakur gestur er Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfisráðherra.
Gangan hefst kl. 11.00 við Toppstöðina og áætlaður göngutími er 1 klukkustund.
Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Þátttakendur eru hvattir til að ganga eða hjóla í Elliðaárdalinn, eða sameinast í bíla eftir bestu getu.
26. apríl: Hvað veist þú um umhverfismál?
Umhverfis pub-quiz í samvinnu við FÍ Ung
FÍ Ung og Gaia, félag meistaranema í Umhverfis- og auðlindafræði Í HÍ standa fyrir spurningakeppni um umhverfismál.
27. apríl: Gönguskórnir ganga aftur
Skiptimarkaður og fataviðgerðir í Mörkinni 6
Skiptimarkaður með útivistaföt og búnað milli kl. 11 og 15 í Mörkinni 6. Á sama tíma ætla sérfræðingar frá Handprjónasambandinu að kenna okkur að stoppa í ullarsokkana og gera við götin á olnbogunum. Nemendur á fataiðnaðarbraut Tækniskólans aðstoða með léttar viðgerðir á fatnaði. Einnig verða á staðnum þaulreyndir „ferðafixarar“ úr röðum FÍ með duct tape að vopni.
28. apríl: Stóri plokkdagurinn 2019
Ferðafélag Íslands tekur þátt um allt land.
Við látum til okkar taka á Stóra plokkdeginum og hvetjum alla félaga til að leggja sitt af mörkum. Deildir félagsins um allt land skipuleggja plokk á sínu svæði. Á höfuðborgarsvæðinu stendur til að plokka meðfram Reykjanesbrautinni frá Keflavík, í gegn um höfuðborgina og alla leið að Leirvogsá í Mosfellsbæ.
29. apríl: Ganga umhverfis Helgafell í Hafnarfirði
Grænn lífstíll í samstarfi við Grænar Ferðir.
Við hittumst við bílastæði hjá Kaldárseli og göngum af stað í átt að Helgafelli. Gangan er leidd af fararstjórum frá Grænum ferðum sem miðla til okkar góðum ráðum um umhverfisvæna ferðamennsku og grænan lífstíl.
Sameinumst í bíla. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Gangan hefst kl. 18:00 og áætlað er að hún taki 1,5-2 tíma.
30. apríl: Ganga umhverfis Úlfarsfell
Drögum úr plastnotkun
Við söfnumst saman við bílastæðið Úlfarsárdals megin og höldum af stað. Með okkur í för verður Hildur Hreinsdóttir frá Plastlausum september sem mun benda okkur á leiðir til að draga úr plastnotkun.
Sameinumst í bíla. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Gangan hefst kl. 18:00 og áætlað er að hún taki um 2 tíma.
1. maí: Ganga umhverfis Elliðavatn
Minnkum kolefnisfótsporið
Söfnumst saman við gamla Elliðavatnsbæinn og göngum af stað. Tryggvi Felixson fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands mun leiða gönguna. Tryggvi hefur fylgst vel með þróun loftslagsmála um árabil. Hann var í forsvari fyrir íslensku sendinefndina sem undirbjó Kyotosamninginn 1977, var framkvæmdastjóri Landverndar frá 1999 -2006 og starfaði hjá Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði við loftslagsmál frá 2006-2018.
Sameinumst í bíla. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Gangan hefst kl. 11 og áætlað er að hún taki um 2 tíma.
2. maí: Undir, yfir og allt um kring
Fyrirlestrakvöld í Mörkinni 6 kl. 20.00
Við ljúkum Umhverfisviku Ferðafélags Íslands með áhugaverðu fyrirlestrakvöldi í sal FÍ í Mörkinni 6. Yfirskrift kvöldsins; Undir, yfir og allt um kring vísar til þess að við ætlum að ræða umhverfismál á breiðum grunni. Meðal fyrirlesara eru Orri Páll Jóhannesson, umhverfisfræðingur og aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdarstjóri Landverndar og Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur og umsjónamaður þáttanna Hvað höfum við gert sem sýndir hafa verið á RÚV við undanfarið. Eins mun félagi í Ungum umhverfissinnum taka til máls. Fundarstjóri er Heiðrún Ólafsdóttir verkefnisstýra umhverfisviku FÍ.