Í 80 ár hefur Ferðafélag Íslands staðið fyrir fjölmörgum árlegum hópferðum vítt og breitt um landið og meðal vinsælli áfangastaða er stærsti jökull Evrópu, Vatnajökull, og hans nánasta umhverfi. Undanfarin tvö ár hefur Haraldur Örn Ólafsson séð um fararstjórn þar fyrir Ferðafélagið, en hann er sérlegur áhugamaður um þetta mikilfenglega svæði.
Ég fór fyrst með hóp upp á jökulinn á vegum Ferðafélagsins árið 2005 þannig að þetta er þriðja árið sem ég er með ferðir þangað, en við höfum bæði gengið upp á Hvannadalshnjúk og farið á gönguskíðum yfir jökulinn, segir Haraldur. Sjálfur hef ég hins vegar verið að þvælast þarna um svæðið í ansi mörg ár þar sem ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að fara á þessar slóðir.
Þrátt fyrir að hafa alltaf búið í Reykjavík segist Haraldur ætíð hafa verið mikill fjallamaður. Ég byrjaði að stunda fjallamennsku upp úr 14 ára aldrinum og mest í kringum höfuðborgarsvæðið til að byrja með. Svo þegar ég var kominn með meiri reynslu fór ég að þvælast um þarna fyrir austan og þekki svæðið því vel núna.
Aðspurður segist hann ekki vita hversu oft hann hefur gengið á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk. Ég hef misst tölu á því hversu oft ég hef farið þangað en síðustu árin hef ég verið að fara svona þrisvar, fjórum sinnum á ári.
Eins og gefur að skilja er ganga upp á Hvannadalshnjúk nokkuð líkamlega krefjandi.
Maður þarf vissulega að vera í svolítið góðri þjálfun til að komast upp á toppinn og því er ekki skynsamlegt að fólk stökkvi af stað án þess að hafa gengið eða stundað líkamsrækt af nokkru viti. En á Vatnajökulssvæðinu eru fjölmargar gönguleiðir og því ættu allir að geta fundið leið við sitt hæfi þó svo að fólk sé í misgóðu formi, áréttar Haraldur.
Nú hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð sem verður stærsti þjóðgarður í Evrópu og sem áhugamaður um svæðið gleðst Haraldur yfir því. Ég tel að það muni hafa táknræn áhrif, þar sem þetta verður þá svæði sem samstaða ríkir um að beri að vernda og það verður kynnt sem slíkt, bæði hér innanlands og erlendis. Ég tel líka að þessi samþykkt muni hafa töluvert efnislegt innihald og þýði að fólki verði betur gert kleift að ferðast um og njóta svæðisins á umhverfisvænan hátt, segir hann.
Á Íslandi eru vissulega margir fallegir staðir sem erfitt er að gera upp á milli en ég leyfi mér þó að segja að Vatnajökull og nágrenni eru eitthvert stórfenglegasta svæði landsins. Þeir sem ekki hafa farið þangað ættu hiklaust að stefna að því að skella sér við tækifæri. Þetta er auðvitað mjög stórt svæði sem erfitt er að skoða allt í einni ferð, en til dæmis er hægt að sjá hluta af svæðinu í Skaftafelli og fara inn á Langasjó sem er mjög tilkomumikið. Ef menn ætla síðan á jökulinn sjálfan þarf svolítinn undirbúning en það er vel þess virði, bætir Haraldur við að lokum.
Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur
blaðamann hjá Blaðinu en þessi grein birtist þar þri 20. mars.