Ungmennastarf FÍ allir út og Fjallaskóli FÍ
Skúli Björnsson hjá Sportís/Cintamani hefur verið ráðinn verkefnisstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. Skúli mun hafa umsjón með ungmennaverkefni FÍ sem fengið hefur vinnuheitið ,,allir út. Skúli mun þróa og móta ungmennastarfið ásamt verkefnisstjórn en undir verkefnið fellur meðal annars Fjallaskóli FÍ sem verður starfræktur í Þórsmörk, útgáfa á handbók fyrir börn og foreldra um ferðir og samskipti við náttúruna, ný heimasíða fyrir börn um ferðalög og útiveru, fjallaferðir í Esjuna fyrir leikskólabörn, sérstakar ferðir fyrir börn, unglinga og foreldra. Þá mun Skúli leita samstarfsaðila að verkefninu og tryggja rekstrarlegar forsendur verkefnisins.
Skúli hefur undanfarin ár byggt upp fyrirtækið Sportís / Cintamani og verið þar eigandi og framkvæmdastjóri en hefur nú tekið sér hvíld frá þeim störfum.
Ferðafélag Íslands býður Skúla velkominn til starfa.