Uppbygging í óbyggðum

Uppbygging FÍ í óbyggðum er yfirskriftin á fræðslu- og myndakvöldi Ferðafélagsins sem haldið verður fimmtudagskvöldið 17. nóvember kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.

Þegar veturinn læsir klónum í landið og hægist á ferðalögum og útivist er hefð fyrir því að FÍ bjóði upp á skemmtileg fræðslu- og myndakvöld. Fyrsta fræðslukvöld vetrarins verður haldið núna á fimmtudagkvöld þegar fjallað verður um áratugalanga uppbyggingu FÍ á hálendi Íslands. Félagið hefur í gegnum tíðina staðið fyrir byggingu skála og göngubrúa og margs konar uppbyggingu til að ýta undir og auðvelda göngumönnum för um landið.

Á fimmtudaginn mun Leifur Þorsteinsson ríða á vaðið, sýna myndir og segja frá uppbyggingu FÍ bæði á Kili og Fjallabaki en Leifur hefur að undanförnu unnið þrekvirki í því að taka saman sögu þessarar uppbyggingar.

Að því loknu mun Þórhallur Þorsteinssson frá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sýna myndir og segja frá miklu uppbyggingarstarfi FFF í Kverkfjöllum og á Víknaslóðum.

Allir eru hjartanlega velkomnir. Aðgangseyrir kr. 600 og að venju er kaffi og kleinur innifalið.

Farid1-opt.jpg Farid2-opt.jpg
Göngubrú yfir Farið hjá Hagavatni. Eftir nokkrar tilraunir var ákveðið að færa brúna töluvert neðar.