Upplifun á Fimmvörðuhálsi

Helgina 10-11 júlí  mun Ferðafélag Íslands bjóða upp á fyrstu gönguna yfir Fimmvörðuháls. Til undirbúnings fóru tveir fararstjórar FÍ í sérstakan könnunarleiðangur upp á hálsinn að gosstöðvunum og nýju gígunum Magna og Móða. Helstu niðurstöður þessa könnunarleiðangurs eru þessar: Færðin er allgóð, 10 cm þykkt lag af sandi og ösku liggur yfir Skógaheiði og Fimmvörðuhálsi. Efst á hálsinum liggur lagið á stórum svæðum ofan á snjó og þar helst það rakt og fyrir vikið gætir ekki foks. Ný leið yfir hraunið rétt við gígana er afar áhugaverð og litríkar útfellingar´gleðja augað og það gerir heitt hraun undir fótum göngumanns einnig.
Þegar vindur blæs gætir foks í líkingu við moldrok í Skógaheiði og líklega eitthvað í Þórsmörk þótt ástandið inni í Mörkinni sé miklu betra en úti á aurum Markarfljóts. Í rannsóknarleiðangri mættu fararstjórar nokkrum útlendingum á eigin vegum og ljóst að umferð er nokkur yfir hálsinn enda færð og ástand miklu betra en sumar flökkusögur hafa gefið til kynna.
Gangan yfir hálsinn er því afar sterk og mögnuð náttúruupplifun en rétt er að vera með buff eða klút, eða rykgrímu ásamt hlífðargleraugum í bakpokanum. Hér fylgja nokkrar myndir sem segja meira en mörg orð:
Fimmvorduhals 1

Hér sést göngumaður á leiðinni úr Baldvinsskála upp á hálsinn. Sérstætt landslagið á sandþöktum snjónum minnir á aðrar plánetur.

fimmvorduhals 2

Hér er göngumaður efst á hálsinum rétt sunnan við Magna og Móða. Þetta minnir meira á tunglið en Fimmvörðuháls.

fimmvorduhals 3

Nýja hraunið er víða volgt viðkomu og sérstætt að ganga yfir það en litríkar brennisteinsútfellingar setja svip á það.