Svavar Jónatansson, starfsmaður Hrafnistu, leiðsögðumaður og hljóðbókalesari notar frítíma sinn þessa dagana til að lesa upp úr árbókum Ferðafélagsins. Lesturinn er aðgengilegur á netinu og kallast Kórónulestur. Í viðtali við Fréttablaðið segir Svavar ástæður lestursins vera margþættar. Þetta sé tilraun hans til að tengja saman yngri kynslóðina við þá eldri sem sé einangruð núna. Efnið úr árbókunum bjóði þannig upp á umræðuefni sem tengist jafnvel minningum um ferðalög innanlands. Að auki muni líklega margir ferðast innanlands í sumar og gæti lesturinn vakið áhuga landsmanna á eigin landi.
Aðspurður hvers vegna árbækur Ferðafélagsins hafi orðið fyrir valinu svaraði Svavar: „Árbækurnar eru endalaus fróðleiksbrunnur. Það er allur andskotinn í þessu. Hver blaðsíða bætir við einhverri þekkingu, þetta eru líka algjörir gullmolar fyrir leiðsögumenn. Nýlegur lestur var um Heklu úr árbókinni frá 1945. Þar er ítarleg útlistun á öllum gosum frá landnámi til fimmta áratugarins.“
Við tökum undir orð Svavars og hvetjum fólk til að nýta sér þennan glugga inn í sögu íslenskrar náttúru. Hún er nefnilega ekkert annað er stórkostleg.