Á hæsta tindinum – maður er manns gaman
Eitt fjall á mánuði í febrúar var Grímannsfell í Mosfellsdal. Fellið er hæsta fjallið í Mosfellsku Ölpunum og teygir sig heila 482m upp í himininn. Þegar gangan hófst um kl: 10.00 á Helgadalsvegi vestan undir fjallinu var skýjað. Taldi söfnuðurinn 138 einstaklinga og nokkra hunda í þokkabót.
Þokan tók síðan á móti okkur í um 300 m hæð rétt ofan við kennileitið Hádegisklett. En áfram var haldið eftir GPSinu, fannirnar klofaðar upp á leggi og ekki stoppað fyrr en komið var uppá vesturbrún fjallsins þar sem heitir Flatafell. Þar var tekið nesti og farastjóri þrumaði yfir viðstöddum m.a. fróðleik um gönguhrólfinn Halldór Kiljan Laxness sem átti þar ófá sporin. Áfram var svo haldið og hæsta tindinum náð eftir um 4 km. göngu. Þegar hópurinn var að fá sér hressingu þar uppi tók að létta til og á bakaleiðinni fengum við mjög skemmtilegt veður. Sól og útsýni öðru hvoru af fjallinu.
Allir voru utangátta
sem óðu uppá Grímannsfell.
Hundrað þrjátíu og átta
hurfu þar í snjó og svell.
Fyrsti kaflinn var nokkuð brattur
Þokan að koma
Uppi á fjallinu óðum við snjóinn
Á hæsta tindinum – maður er manns gaman
Það létti til á bakaleiðinni
Góð útsýn yfir Mosfellsdalinn