Útrás til Afríku og Grænlands

Hvalseyjarkirkja er meðal viðkomustaða í útrásarferð til Grænlands.

Utanlandsferðir um ótroðnar slóðir:

Útrás til Afríku og Grænlands

Á sumri komanda býður Ferðafélag Íslands upp á tvær útrásarferðir. Í starfi félagsins er löng hefð fyrir utanlandsferðum og í ár ber hátt ævintýraferð á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, sem er 5.895 metrar á hæð.  Ferðirnar eru farnar í samstarfi við ferðaskrifstofu.

Ferðin á Kilimanjaro er á dagskrá 1. til 11. september. Fararstjóri er Haraldur Örn Ólafsson. Hámarksfjöldi þátttakenda eru 14 manns og er ferðin aðeins á færi vel þjálfaðra göngumanna. Leiðin á Kilimanjaro nefnist Rongai og hefst í norðurhlíðum fjallsins. Hún er bæði fjölbreytt og falleg og ekki jafn fjölfarin og ýmsar aðrar leiðir á fjallið. Efsta tind fjallsins er náð á fimmta degi. Á síðustu dögum ferðarinnar er boðið upp á safariferð um Ambóseli þjóðgarðinn þar sem má sjá fíla, ljón, gíraffa, sebrahesta og fleiri dýr Afríku.

Hin útrásarferðin í sumar er á dagskrá 20. til 27. júlí, en þá verður ferðast um slóðir norrænnar byggðar á Grænlandi.  Fararstjóri verður Jón Viðar Sigurðsson, en þarna gefst kostur á að kynnast fjölbreyttu náttúrufari Suður-Grænlands og sögu norrænnar byggðar á þessum slóðum. Flogið verður til Narsarsuaq og haldið þaðan til Igaliko eða biskupssetursins að Görðum þar sem gangan hefst. Frá Igaliko er gengið til Qaqortoq, stærsta bæjar á Suður-Grænlandi, á fjórum dögum. Rústir hinnar merku Hvalseyjarkirkju eru við gönguleiðina. Eftir tveggja nátta dvöl í Qaqortoq er siglt inn Eiríksfjörð til Brattahlíðar og Narsarsuaq, áður en flogið er heim til Íslands.