Útsýnisferð á Þórólfsfell-eldur í ljósaskiptum

Ferðafélag Íslands efnir til útsýnisferðar á Þórólfsfell í Fljótshlíð á morgun sunnudag. Brottför er úr Mörkinni 6 með rútum kl. kl.16.00. Þórólfsfell er innst í Fljótshlíð og þaðan er bein sjónlína til gosstöðvanna. Stefnt er að því að fylgjast með umbrotunum í ljósaskiptunum en allir sem séð hafa segja þá sjón sérstaklega tilkomumikla.
Gengið verður á Þórólfsfellið sem er hæg ganga og mun taka um klukkustund. Nauðsynlegt er að vera á góðum skóm, með göngustafi og vel klæddur því norðanáttin er köld. Heitt á brúsa og sætmeti í nesti er auðvitað meðferðis og góður sjónauki gæti komið sér vel.
Verð í ferðina er 5000 krónur en ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Yfirleiðsögumaður ferðarinnar er Leifur Þorsteinsson, þrautreyndur fararstjóri FÍ til margra ára. Honum til aðstoðar á göngu á fjallið verða eins margir fararstjórar og þarf.
Gosið virðist síður en svo vera í rénun og í dag bárust fréttir af aukinni virkni.
Gosmynd

Þessi mynd var tekin við gosstöðvarnar í gær þegar fulltrúar Ferðafélagsins fóru á vettvang til athugana. Þarna eru frá vinstri: Auður Kjartansdóttir, fararstjóri, Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ og Haraldur Ólafsson fjallagarpur og pólfari.