Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert samning við Ferðafélag Íslands og þrjú ferðafélög um að nýta aðstöðu í skálum félaganna innan þjóðgarðsins og um sameiginleg verkefni.
Jafnframt hefur verið skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf til lengri tíma. Samningarnir eru við Ferðafélag Íslands sem á og rekur skála í Nýjadal, Ferðafélag Akureyrar sem á skála Dreka í Dyngjufjöllum og Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðafélag Húsavíkur sem reka Sigurðarskála í Kverkfjöllum.
„Við erum mjög ánægð með samninginn og viljayfirlýsinguna sem koma samskiptunum í fastara form og gera okkur kleift að horfa lengra fram á veginn. Við fögnum samstarfi við þjóðgarðinn sem okkur þykir öllum vænt um,“ segir Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ. Í samningunum felst að ferðafélögin leigja Vatnajökulsþjóðgarði aðstöðu í skálunum. Samstarf er um landvörslu og öryggismál, fræðslu og leiðsögn, samstarf um viðhald, merkingu og skráningu upplýsinga um gönguleiðir og um skráningu örnefna og útgáfu korta.
Ólafur segir að kveðið sé á um reglulega stöðufundi og uppýsingagjöf. „Samkomulagið mun skapa góðan anda og aukið traust, samvinnu og gott starf á svæðunum og styrkir þá innviði sem þar eru.“