20.07.2009
Sumarleyfisferð FÍ í Þjórsárver er nú lokið. Alls tóku 30 göngugarpar þátt í ferðinni sem stóð yfir í 6 daga. Gísli Már Gíslason prófessor og fararstjóri í ferðinni segir ferðina hafa verið ánægjulega. ,,Þetta gekk allt saman vel. Við þurfum að vaða yfir Þjórsá í upphafi ferðar og alls var vaðið yfir 20 stórar eða meðalstórar jökulkvíslar í ferðinni. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor var fararstjóri í ferðinni ásamt Gísla og einnig voru þrír jarðfræðingar með í hópnum þannig að óhætt er að segja þátttakendur hafi fengið fræðslu eins og hún gerist best en Þóra Ellen og Gísli Már eru í hópi þeirra vísindamanna sem þekkja Þjórsárver hvað best og hafa stundað þar rannsóknir lengi.