Tuttugu ofurhugar öxluðu bakpoka sína um liðna helgi og héldu til fundar við almættið uppi á efstu tindum, eggjum og brúnum Snæfellsnessfjallgarðsins.
Ferðin bar nafnið Toppahopp á Snæfellsnesi, og það með rentu því efstu brúnir fjallgarðsins voru þræddar eftir bestu getu, allt frá Hraunsfirði að Helgrindum. Veðurguðirnir voru göngufólki að mestu hliðhollir og útdeildu hita, þokuskotnu sólskini og mögnuðu útsýni bæði norður yfir Breiðafjörðinn og suður yfir Faxaflóa.
Þetta var fyrsta ferð Ferðafélags Íslands um þessar slóðir og óhætt er að segja að hún hafi fallið vel í kramið á þátttakendum sem pjökkuðust með byrðar sínar upp og niður hæstu tinda en höfðu samt næga orku afgangs til að tölta í kvöldgöngur og syngja við Ukulele-undirspil í næturstað.
Snæfellsnesfjallgarðurinn býður upp á endalausa möguleika fyrir þá velbergklifrandi, eins og Laxness orðaði það. Bæði þá sem kjósa að ganga hinar gömlu þjóðleiðir sem liggja þvert yfir lægstu skörðin, sveita á milli, sem og hina sem vilja sigra efstu tinda eða skoða hina fjölbreyttu jarðfræði í þessu fjallaríki.
Ferðafélag Snæfellsness hefur af miklum metnaði byrjað að kortleggja alla þessa göngumöguleika og leggja þannig sitt af mörkum til að gera þessa háfjallasali aðgengilega fyrir ferðamenn.