,,Það verður að varðveita víðernin á hálendinu og stofna þar þjóðgarð. Og þetta verður að gerast strax en ekki eftir 5 eða 10 ár." segir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands.
Tómasi var boðið að flytja fyrirlestur á svokallaðri TEDx ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í lok maí. TED fyrirlestrarnir eru fyrir löngu búnir að hasla sér völl sem þekkingamótandi viðburðir undir slagorðinu: Ideas Worth Spreading. Leitað er til framúrskarandi einstaklinga til að flytja stutta en áhugaverða fyrirlestra um sín hjartans mál.
Og hvað er hjartans mál hjá hjartalækninum Tómasi? Að sjálfsögðu íslensk náttúra og náttúruvernd. Hér má sjá má fyrirlestur Tómasar.
,,Náttúran skiptir okkur öllu máli. Hún er ekki síður mikilvægur hluti af þjóðarvitund okkar Íslendinga en menningin og tungan. Náttúran hefur mótað mig og hjálpað mér að sjá hvað skiptir máli í lífinu og hvað hefur minna vægi," segir Tómas sem vonast til að fyrirlesturinn verði mikilvægt innlegg til þess að afla þeirri hugmynd fylgi að varðveita víðerni hálendisins í þjóðgarði.
Hjartað slær á hálendinu
Tómas segist finna fyrir miklum stuðningi við þennan málstað, bæði hér heima en einnig erlendis. Náttúruverndarsinnar þurfi að snúa bökum saman og gera sem flestum ljóst, meðal annars ráðamönnum, að hálendið sé miklu verðmætara ósnortið en virkjað. Hann segir að besta náttúruverndin felist í því að fara með fólk inn á hálendið og sýna þeim ,,hjartað slá". Þá sjái fólk gersemarnar með eigin augum og átti sig betur á mikilvægi þess að vernda þær.
Tómas Guðbjartsson, leiðir hér fjallaskíðaferð á Snæfellsjökul fyrir FÍ
Ferðafélag Íslands gegnir þar lykilhlutverki, að mati Tómasar, enda er markmið félagsins að stuðla að ferðalögum um landið. Sem stjórnarmaður í FÍ vill Tómas leggja þessu markmiði lið ásamt því að kynna sér umræðuna um náttúruvernd á Íslandi í meira návígi.
Liðsauki í ferðamönnum
,,Við Íslendingar eigum töluvert í land í náttúruverndarmálum og því þurfum við að breyta. Reyndar er það svo að við náttúruverndarsinnar erum búin að fá óvæntan en mikilvægan liðsauka sem er ferðamannaiðnaðurinn. Nú er náttúran allt í einu orðin fjárhagslega mikilvæg. Sem er jákvætt út af fyrir sig en óháð peningum ætti náttúrvernd að vera í forgangi. Okkur ber skylda til að skila landinu með ósnortnum víðernum til komandi kynslóða," segir Tómas.
Tómas varar þó við of hraðri aukningu ferðamanna, sérstaklega þegar kemur að hálendinu. ,,Það er vissulega hægt að taka á móti fleiri ferðamönnum á hálendinu með því að byggja upp innviði og skipuleggja landvernd en þetta er að gerast of hratt. Við verðum að skipuleggja okkur svo við getum betur tekið á móti öllum þessum ferðamönnum sem streyma til landsins."
Að uppgötva náttúruverndarsinnann í sér
Tómas segist hafa verið náttúruverndarsinni frá því hann man eftir sér. Hann ferðaðist mikið um hálendið með föður sínum sem er jarðfræðingur og lærði þá að meta náttúruna að verðleikum og sýna henni virðingu. Að auki vann hann meðfram sex ára læknanámi sem fjallaleiðsögumaður og sérhæfði sig í gönguferðum með útlendinga á hálendinu, sérstaklega í Kverkfjöllum.
,,Sem hjarta- og lungnaskurðlæknir er ég í mjög gefandi starfi en að sama skapi miklu álagsstarfi. Mér finnst ekkert betra en að komast á fjöll og hreinsa þannig hugann. Þannig hleð ég batteríin og næ meiri starfsorku, bæði líkamlega en ekki síður andlega," segir Tómas sem segir reyndar mjög marga lækna hafa áhuga á útivist og náttúruvernd.
,,Sama er sem betur fer hægt að segja um ótrúlega marga Íslendinga. Margir þeirra hafa bara ekki ennþá uppgötvað náttúruverndarsinnann í sér," segir Tómas Guðbjartsson.