Kæru félagsmenn Landverndar og aðrir velunnarar.
Við hvetjum sem flesta til að mæta í Árnes og minnast verndarbaráttu Þjórsárvera. Meðal framsögumanna eru Birgir Sigurðsson rithöfundur, Gísli Már Gíslason formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur. Sjá einnig á heimasíðu Landverndar: www.landvernd.is.
Verið er að kanna með rútuferð frá Reykjavík og verður það auglýst síðar.
VERNDUN ÞJÓRSÁRVERA – MINNINGABROT
Árnesi, 17. mars kl. 14:00
Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst. Þann 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Í tilefni þessa boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd, og Náttúruverndarsamtök Íslands til fundar í félagsheimilinu Árnesi til að minnast þessa merka fundar. Skyggnst verður inn í tíðaranda á fyrri hluta áttunda áratugarins í Gnúpverjahreppi, litið yfir farinn veg og horft til framtíðar.
Fundur Gnúpverja, sem einnig var haldinn í félagsheimilinu í Árnesi, var fjölmennur og stóð fram á nótt. Á honum kom fram einhugur um að vernda bæri Þjórsárver. Þessi fundur skipti sköpum um framgang mála á þeim tíma og sennilega alla tíð þar eftir. Samþykkt var ályktun sem hefur staðist tímans tönn og til er ítarleg fundargerð. Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera hefur staðið nær samfellt síðan og margir mikilvægir áfangasigrar unnist.
Meðal framsögumanna á fundinum eru Birgir Sigurðsson rithöfundur sem var einn af þeirra sem stóðu fyrir fundinum árið 1972, Gísli Már Gíslason prófessor og formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur sem hefur rannsakað bakgrunn og ástæður þess að Gnúpverjar tóku sér svo afgerandi stöðu með náttúrunni, óbyggðunum og fuglum himinsins.
Fundurinn hefst kl. 14 og lýkur ekki seinna en kl. 17.