Vetrarparadís í Landmannalaugum

Landmannalaugar eru ekki síðri áfangastaður að vetri en að sumri. Að vetri er þar öll aðstaða Ferðafélagsins opin fyrir útivistarfólk, með gistirými, eldunaraðstöðu og að sjálfsögðu heitri laug.

„Það er ríflega meters jafnfallinn snjór hérna núna,“ segir Halldór Hafdal Halldórsson skálavörður. „En ætli það hafi ekki ringt niður um svona fjörutíu sentimetra í nótt. Nú er mjög blautt.“

Landmannalaugar fara auðvitað ekki varhluta af lægðunum sem dynja á landinu. Sextíu manna hópur jeppafólks var að fara eftir að hafa unað sér vel í vetrarríkinu.

Núna er Halldór einn, meðan veðrið gengur yfir. Það er ekki vanalegt í Landmannalaugum. Þónokkuð er um ferðir jeppafólks yfir vetrarmánuðina, auk skipulagðra dagsferða ferðaþjónustufyrirtækja fyrir ferðamenn.

Eins fer fólk á gönguskíðum. Til dæmis er hægt að ganga frá Sigöldu — í góðri dagsferð — gista yfir nótt og ganga til baka. Það eru um 50 kílómetrar í allt og heilmikið ævintýri.

Halldór er að leysa af í Landmannalaugum og á leið til byggða um leið og veður leyfir. Meðfylgjandi mynd tók hann þegar hann leysti af fyrr í vetur. Hún lýsir hinni töfrandi vetrarstemmningu vel.

Margir þekkja auðvitað Halldór af Hornströndum, og þó svo hann geri ekki sínar víðfrægu fiskibollur í Landmannalaugum þá segir hann útivistarstemmninguna alls ekki ósvipaða á þessum tveimur ólíku áfangastöðum. Alltaf jafngaman.

En hvernig er að vera einn þarna uppfrá? „Það er fínt,” segir Halldór. „Ég er með hundinn minn. Maður er aldrei einn ef maður hefur hund.“