Vill leyfa aðgengi ferðamanna að Gígjökli

Vill rýmra aðgengi að gosinu

Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins,“ sagði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur á Ferðamálaþingi í fyrradag. Hann hefur stundað rannsóknir á eldfjöllum í fjóra áratugi og skipulagt ferðir fyrir ferðamenn á eldfjallasvæði í um þrjá áratugi. Erindi Haraldar má lesa á bloggi hans, vulkan.blog.is.

Sama dag og Haraldur hvatti til eldfjallaskoðunar sendi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra út tilkynningu til að árétta þær hættur sem geti fylgt því að fara nálægt eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Þar segir m.a. að þegar jökulhaft milli gígsins og Gígjökuls bresti muni eitraðar lofttegundir eiga greiðari leið niður Gígjökul og út á eyrarnar þar fyrir framan. Einnig að í eldgosum sem þessum komi fyrir að gusthlaup geti farið niður farvegi eins og Gígjökul þótt það sé ekki algengt. Hvað segir Haraldur um þetta?

„Það er þeirra áhugamál að halda fólki eins langt frá og hægt er. Þeir eru lögregluþjónar og gera það á þennan máta,“ sagði Haraldur. Hann vill frekar að fundnar verði leiðir til að gera fólki kleift að sjá eldgosið á sem öruggastan hátt.

Mögnuð nánd við Gýgjökul

„Það er algjörlega magnað að vera hérna, og eins að aka hér inneftir,“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hann fór inn að Gígjökli í gær ásamt fleirum frá Ferðafélaginu og Vegagerðinni til að kanna aðstæður í Þórsmörk og ástand vegarins.

„Að sitja hér og horfa á átökin er einfaldlega gjörsamlega magnað. Það eru forréttindi okkar Íslendinga að búa hér á þessari ævintýraeyju. Við höfum setið hér í klukkutíma dolfallnir yfir náttúrufegurðinni og þessum gríðarlegu átökum.“

Páll telur að eldgosið þurfi ekki að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Þvert á móti eigi að gera fólki kleift að skoða eldgosið. „Það á að streyma til okkar fólkið til að fá að fylgjast með slíkum náttúruundrum,“ sagði Páll. Hann segir að Ferðafélagið og ferðaþjónustuaðilar vilji að opnað verði fyrir aðgang að Gígjökli.

Almannavarnir ítrekuðu síðdegis í gær að lokanir sem tilkynntar voru 27. apríl sl. væru enn í fullu gildi og svæðið lokað af öryggisástæðum. Ekki væri fyllilega vitað hvaða áhrif gosið hefði haft á jökulinn. Sprungur gætu hafa myndast og m.a. er vitað um 50 metra djúpa vatnsrás á sunnanverðum jöklinum. Sjá nánar um eldgosið í Eyjafjallajökli, áhrif þess og afleiðingar, í Morgunblaðinu í dag.