Viltu koma með að mæla jökul?

Jón Eyþórsson einn af fyrrum forsetum Ferðafélags Íslands og frumkvöðull í margvíslegu vísindastarfi á Íslandi er upphafsmaður sporðamælinga á jöklum. Hann hóf þær um 1930 og kom á fót neti sjálfboðaliða um land allt sem mældu framskrið og hopun jökla undir hans leiðsögn.
Þetta starf hefur haldist til þessa dags en hefur verið í umsjá Jöklarannsóknarfélags Íslands í hartnær 60 ár en í dag fylgjast sjálfboðaliðar með um 40 jökulsporðum og heimsækir hver sitt fósturbarn einu sinni á ári. Þessa dagana er hentugur tími til þess að fást við mælingar áður en vetur sest að.
Einn af fararstjórum Ferðafélags Íslands, Páll Ásgeir Ásgeirsson hefur tekið að sér að mæla sporð Lambatungnajökuls í Skyndidal í Lóni. Páll Ásgeir hyggur á mælingaferð um miðjan október og ef áhugasamir ferðalangar vilja slást í för með honum og Rósu Sigrúnu Jónsdóttur þá ættu þeir að senda póst á netfangið: lysandi@internet.is.
Þátttakendur þurfa að vera á breyttum jeppum því aka þarf frá Hoffelli í Nesjum inn eftir botni Hoffellsdals langleiðina fram í stafn hans og ganga síðan yfir lágan háls yfir í Skyndidal að jöklinum. Þetta eru fáfarnar slóðir undir hrikalegum fjöllum og líklega verður tækifærið notað og heimsóttar minjar um silfurbergsnám í Hoffellsdal.
Brottför og nánara skipulag verður tilkynnt þegar dagsetning liggur fyrir en beðið er góðrar veðurspár um miðjan mánuðinn.
Hoffellsdalur

Í botni Hoffellsdals í Nesjum. Fossdalshnúta vinstra megin við dalstafn en Lambatungnatindur með hvíta húfu fyrir miðjum dal.