Viltu verða Stjarna náttúrunnar? Námskeið í stjörnuspeki

Þann 5. október n.k. hefst námskeið í stjörnuspeki í sal FÍ í Mörkinni 6. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á að tengjast náttúrunni í gegnum þessa fornu speki og læra um grunnþætti stjörnuspekinnar í máli, myndum og göngu. Flestir þekkja eflaust stjörnumerkið sitt þótt kannski færri viti umfang þessarar aldar gömlu speki sem á sér afar sterkar rætur í náttúrunni. Námskeiðið stendur yfir í 7 vikur og kostar 15.000kr. Kennt verður á þriðjudagskvöldum frá 18:00 - 21:30. Kennari verður Bjarndís Arnardóttir (6993691) stjörnuspekingur og leiðsögumaður.

Stjörnuspekin hefur haft djúp og varanleg áhrif á mannkynssöguna því trúin á að stjörnurnar hafi áhrif á líf okkar hefur lifað í aldaraðir enda órjúfanlegur hluti af náttúrunni. Upphaflega voru það aðallega bændur fornþjóðanna sem studdust við hana í þeim tilgangi að hámarka uppskeruna. Þeir voru knúnir áfram til þess að finna leiðir um heppilegasta sáningatímann og komust að því að himintunglin voru þeim gagnleg í þeim efnum.  

Frá örófi alda horfðu mennirnir í átt til sólar til þess að finna lífi sínu tilgang og stefnu. Þeir horfðu með aðdáun á þennan eldhnött rísa dag eftir dag í mistruðu morgunsárinu og í ljósaskiptunum, þegar kvölda tók, birtist tunglið hægt og rólega líkt og úr djúpi sjávar og kastaði birtu sinni út í myrkrið.

Þessi fallega hringrás náttúrunnar vakti forvitni frummannsins ennfrekar svo hann tók að tengja hana við sjálfan sig og líkama sinn. Hann upplifði sterkt og lifandi samband við náttúruna sem leiðbeindi honum í harðri lífsbaráttunni. Bændur og veiðimenn byggðu þannig tilveru sína á ferð sólar og tungls um himinngeiminn. Þeir lærðu á samspil himins og jarðar því það sem átti sér stað í umhverfinu miðuðu þeir við sjálfan sig. Þeir rannsökuðu sólina og tunglið og hina óendanlegu hringrás dags og nætur, lífs og dauða árstíðanna ásamt baráttu sína við náttúruöflin. Þeir sáu að hringrásirnar voru stöðugar en breytingarnar tímabundnar. Sólin vaknaði við sjóndeildarhringinn dag hvern og svaf á nóttinni til þess að vakna aftur í dögun. Rauðgulu laufin sem féllu af trjánum ár hvert táknaði ekki endanlegan dauða heldur tíma svefns og endurnýjunar fyrir birtingu vorsins. Mennirnir sjálfir lögðu sig að kvöldi og vöknuðu að morgni endurnýjaðir til þess að takast á við nýjan dag. Ekki undarlegt að þeir finndu sig í beinu sambandi við náttúruna.