Vinir Vatnajökuls - stofnun hollvinasamtaka

Þér er boðið á samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.  Samkoman verður haldin á lengsta degi ársins - sunnudaginn 21. júní kl. 14  í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands við Sturlugötu í Reykjavík.  

Á samkomunni opnar Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, vefsíðu samtakanna en einnig fræðast gestir um Vini Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarð.  Viðstaddir verða fjölmargir einstaklingar, fulltrúar stofnana, fyrirtækja og samtaka sem komið hafa að undirbúningi á stofnun samtakanna, sem og verðandi Vinir Vatnajökuls.

Við hvetjum þig til þess að mæta og kynnast þeim fjölmörgu sem vilja leggja góðu málefni lið.  Þú mátt gjarnan taka með þér gesti sem þú telur að eigi erindi í hóp Vina Vatnajökuls.

Dagskráin stendur til klukkan 14.30 og samanstendur af fróðleik um samtökin og Vatnajökulsþjóðgarð.  Að dagskrá lokinni verður boðið upp á léttar veitingar.

Dagskráin:

  • Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og formaður samtakanna, segir frá Vinum Vatnajökuls.
  • Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, opnar heimasíðu samtakanna
  • “Stærsti þjóðgarður í Evrópu” Þórður H. Ólafsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs stiklar á stóru á meðal perlna þjóðgarðsins.
  • Undirritun viljayfirlýsingar um samstarf milli Vina Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarðs
  • “Ég og Vatnajökull” Tómas Guðbjartsson skurðlæknir, fjallagarpur og Vinur Vatnajökuls rifjar upp minningar tengdar Vatnajökli.

Við getum öll verið Vinir!

Tilgangur Vina Vatnajökuls er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf er stuðli að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma.

Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök og fyrsti formaður stjórnar er Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands.

Stefnt er því að Vinir Vatnajökuls verði fjölmenn, fjárhagslega sjálfstæð samtök.   Með sameiginlegu framlagi innlendra og erlendra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana geta Vinir Vatnajökuls styrkt góð og mikilvæg verkefni sem stuðla að þekkingu, leiða af sér vöxt í mörgum starfsgreinum og auka almenna vitund á sérstöðu og mikilvægi Vatnajökulsþjóðgarðs - stærsta þjóðgarðs í Evrópu