Vínland og hörfun jökla: Fræðslukvöld FÍ

Næstkomandi miðvikudagskvöld, 16. mars, verður boðið upp á afar fróðlegt fræðslu- og myndakvöld hjá Ferðafélagi Íslands.

Kvöldið er tvískipt. Fyrstur tekur til máls Páll Bergþórsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri, en hann ætlar að fjalla um Landnámstilraunir á Vínlandi í víðu samhengi og frásagnir af fundi Leifs Eiríkssonar á Vínlandi.

Næstur á stokk er Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem ætlar að fræða gesti um hörfun íslenskra jökla undanfarna áratugi og sýna myndir af því hvernig jöklar landsins hopa jafnt og þétt.

Fræðslukvöldið hefst stundvíslega kl. 20 í sal FÍ, í Mörkinni 6. Aðgangseyrir er 600 kr. og innifalið er kaffi og kleinur. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Næsta fræðslu- og myndakvöld FÍ verður haldið 13. apríl en þá mun Leifur Þorsteinsson fjalla um vinsælustu gönguleið landsins, Laugaveginn og næsta nágrenni hennar.