Laugavegur
Lýsing
Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er einhver allra vinsælasta gönguleið landsins og hefur að auki komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi.
Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.
Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði félagið byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og voru frumkvöðlar innan félagsins áhugasamir um að tengja þau svæði með gönguleið um hina stórbrotnu náttúru sem er á leiðinni.
Allar götur síðan hefur félagið unnið að uppbyggingu á gönguleiðinni og þeim skálasvæðum sem eru á leiðinni. Meðal annars hefur verið stikað, merkt, sett upp upplýsingaskilti og merkingar, settar upp göngubrýr, neyðarljós, unnið í fjarskiptamálum, gefnar út leiðarlýsingar, gönguleiðabækur og kort, sáð í svæði, gróðursett og þökulagt.
Skálasvæði félagsins á Laugaveginum eru nú sex talsins: Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Botnar á Emstrum og Langidalur í Þórsmörk.
Auk þess að gefa sér góðan tíma í gönguna sjálfa þá er mælt með því að göngufólk noti tækifærið og eigi einhvern tíma í Langadal í Þórsmörk í lok göngunnar. Þar er yndislegt að dvelja og hægt að finna margar fallegar gönguleiðir í nágrenninu, bæði lengri og styttri. Skálaverðir veita nánari upplýsingar.
Margir kjósa að auki að ljúka Laugavegsgöngu með því að ganga Fimmvörðuhálsinn og enda ferðina á Skógum.
Hér fyrir neðan má finna allar nauðsynlegar upplýsingar um Laugaveginn og lýsingu á hverjum göngudegi fyrir sig. Neðst á síðunni eru svo flipar með korti, öllum skálum og tjaldsvæðum sem eru á leiðinni og nokkrum ljósmyndum.
Hvernig kemst ég?
Að sumri til er hægt að aka á fjórhjóladrifnum bílum upp í Landmannalaugar eftir Fjallabaksleið nyrðri (F208) eða Dómadalsleið (F225). Að sama skapi er hægt að aka á vel búnum jeppum inn í Þórsmörk (F249) að sumri til. Opnun veganna að vori er ákvörðuð af Vegagerðinni og fer eftir snjóalögum og ástandi vega eftir veturinn.
Þeir sem kjósa að ljúka Laugavegsgöngunni með því að ganga Fimmvörðuhálsinn, enda á Skógum sem liggur við þjóðveg 1. Hægt er að aka á hefðbundnum fólksbílum að Skógum allan ársins hring.
Nokkur fyrirtæki bjóða upp á rútuferðir í Landmannalaugar og Þórsmörk yfir sumartímann, t.d. Trex og Kynnisferðir og stoppa rúturnar alveg við skálana. Hægt er að kaupa stakar ferðir eða rútupassa sem gildir í ótakmarkaðan tíma. Þetta er góður kostur fyrir þá sem hyggjast ganga, hvort sem er Laugaveginn eða Fimmvörðuhálsinn og gefur möguleika á að taka rútu á upphafsstað göngunnar og frá endastöð hennar.
Hvenær er leiðin opin?
Opnun og aðgengi að gönguleiðinni er mismunandi eftir árferði og helst í hendur við veður, snjóalög og hvenær Vegagerðin opnar vegina inn í Landmannalaugar og að Fjallabaki (F208/F225/F210).
Í meðalári má gera ráð fyrir að leiðin sé opin og fær á milli 25. júní og 15. september.
Að vetri til er þessi leið aðeins fær fyrir vant fólk með 5 árstíða útbúnað. Athugið að yfir vetrartímann ganga engar rútur, hvorki inn í Landmannalaugar né inn í Þórsmörk.
Hvað tekur gangan langan tíma?
Á Laugaveginum velur hver og einn sinn ferðamáta og sumir kjósa að gista í skálum á meðan aðrir sofa í tjöldum.
Að sama skapi velja sumir að hlaupa leiðina í einum áfanga en aðrir gefa sér að minnsta kosti fjóra daga til að njóta ferðarinnar og leita uppi fagra og stórbrotna staði sem alls staðar má finna meðfram leiðinni.
Mælt er með því að taka sér góðan tíma í Laugavegsgöngu eða þrjá til fjóra daga og dvelja tvo til þrjá daga í Langadal í Þórsmörk í lok ferðar þar sem svæðið býður upp á fjölbreytt úrval gönguleiða. Ef gengið er yfir Fimmvörðuhálsinn líka, þá þarf að bæta að lágmarki einum degi við heildardagafjöldan.
Rötun
Leiðin er stikuð, stígar greinilegir og nokkuð auðvelt er að rata í góðu veðri. Í vondum veðrum og þoku getur allt breyst í einu vetfangi og þá er sérstaklega fyrsti hluti leiðarinnar, frá Landmannalaugum, um Hrafntinnusker og í Álftavatn, erfiður og villugjarn. Þessi hluti leiðarinnar liggur að hluta til á snjó allt árið, gengið er upp í ríflega 1200 metra hæð, uppi á miðju hálendi Íslands þar sem allra veðra er von, þar með talið snjókoma í júlí.
Vaða þarf að minnsta kosti þrjár ár á leiðinni sem að öllu jöfnu eru ekki til vandræða en geta þó vaxið nánast fyrirvaralaust í rigningum og leysingum.
Farsímasamband á leiðinni er stopult, en samband er í og við alla skálana nema á Emstrum þar sem þarf skottast upp á hæð til að ná sambandi.
Í hvora áttina?
Laugaveginn er einstefnuleið yfir hásumartímann, gengið frá Landmannalaugum og suður í Þórsmörk.
Óhætt er að fullyrða að nánast allir Íslendingar sem ganga Laugaveginn gangi hann frá norðri til suðurs, það er frá Landmannalaugum í Þórsmörk, enda hallar undan fæti í þá áttina. Að auki er útsýnið sem skyndilega opnast yfir syðri hluta leiðarinnar, Álftavatn og suðurjöklana þegar komið er fram á Jökultungurnar, hreint stórfenglegt og situr að eilífu í minni þeirra sem það hafa upplifað.
Skálar og tjaldsvæði
Á leiðinni er að finna sex áfangastaði með tjaldsvæðum og gistiskálum sem allir eru í eigu Ferðafélags Íslands. Sjá flipa hér neðst á síðunni þar sem allir skálar og tjaldsvæði á Laugaveginum eru listaðir upp. Þar má líka finna allar nánari upplýsingar um hvern skála fyrir sig.
Vinsamlegast hafið í huga að bannað er að tjalda utan merktra tjaldsvæða innan Friðlandsins að Fjallabaki.
Í Landmannalaugum er frábær aðstaða og gistipláss í svefnpokaplássum fyrir 78 manns. Í Hrafntinnuskeri geta 52 sofið og 72 í skálunum í Álftavatni. Í Hvanngili geta 60 gist og sami fjöldi í Botnaskálunum í Emstrum. Í Langadal í Þórsmörk bíður svo stór og rúmgóður skáli þar sem pláss er fyrir 75 manns.
Búnaður, vistir og matur
Gönguleiðin um Laugaveginn liggur um óbyggðir á hálendi Íslands þar sem allra veðra er von, líka að sumarlagi. Það er því algerlega nauðsynlegt að vera á góðum gönguskóm og með hlýjan og vatnsheldan fatnað meðferðis.
Gott er að byrja á því að skoða búnaðarlista þegar verið er að pakka í bakpokann fyrir Laugavegsferð.
Í öllum skálum á leiðinni er hægt að kaupa lágmarksvistir svo sem þurrmat, pakkasúpur, gosdrykki og súkkulaði. Einnig prímusa og gas. Í Langadal í Þórsmörk er auk þessa hægt að kaupa bjór og vín. Hins vegar er ekki hægt að kaupa tilbúinn mat í skálum FÍ og því þurfa göngumenn að bera hann með sér.
Mjög víða er hægt að komast í drykkjarvatn í lækjum svo óþarfi er að bera mikið vatn með sér.
Hreinlætisaðstaða og rusl
Góð hreinlætisaðstaða er til staðar í öllum skálunum á leiðinni með rennandi vatni og hægt að komast í sturtu gegn gjaldi alls staðar nema í Hrafntinnuskeri.
Göngumenn taka að sjálfsögðu allt rusl með sér til byggða, líka klósettpappír og allar matarleyfar. Hægt er að losa sig við rusl í nokkrum skálum en í öðrum, eins og t.d. Hrafntinnuskeri, er ekki hægt að skilja neitt rusl eftir.
Umgengni og náttúruvernd
Allir sem ganga Laugaveginn þurfa að virða almennar umgengnisreglur, ganga vel um náttúruna, fylgja merktum stígum, tjalda á merktum tjaldsvæðum, forðast að ganga á mosa eða viðkvæmum gróðri og skilja eftir sig för í landslaginu.
Góð umgengnisregla er að víkja alltaf a.m.k. 200 m frá göngustíg ef gera þarf þarfir sínar á leiðinni og taka allan pappír með sér í t.d. lokuðum poka.
Það er aldrei of oft ítrekað að ekkert er skilið eftir í náttúrunni, hvorki lífrænar matarleyfar né klósettpappír. Almenna reglan er alltaf sú að skilja ekkert eftir sig nema fótspor á stíg og taka ekkert með sér nema myndir og minningar!
Ferðafélag Íslands hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á virðingu fyrir náttúrunni og starfar eftir skýrri umhverfisstefnu.
Fróðleikur um Laugaveginn
Ferðafélagið hefur gefið út sérstaka leiðsögubók um Laugaveginn, þar sem hverri dagleið á milli skálanna er lýst sérstaklega en jafnframt veittar upplýsingar um skemmtilega aukakróka og kvöldgöngur út frá skálunum.
Árbók FÍ 2021 fjallar um gönguleiðina frá Landmannalaugum til Þórsmerkur og áfram suður yfir Fimmvörðuháls ásamt aðliggjandi svæðum.
Árbók FÍ 2010 fjallar um friðland að Fjallabaki og þar er að finna margvíslegan fróðleik um Friðlandið almennt og Landmannalaugar sérstaklega.
Nokkur landakort sem sýna Laugaveginn allan hafa verið gefin út, meðal annars sérkortið Þórsmörk Landmannalaugar sem er í mælikvarðanum 1:100 000.
Að auki er hægt að kaupa vandað, teiknað gönguleiðakort af Landmannalaugum og nágrenni.
Síðast en ekki síst bendum við á veglega og afar eigulega ljósmyndabók um Laugaveginn.
Hægt er að kaupa þessar bækur og kort í vefverslun FÍ, á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 og í skála FÍ í Landmannalaugum. Leiðsögubókina um Laugaveginn og sérkortið Þórsmörk Landmannalaugar fæst líka í öðrum gönguskálum á Laugaveginum sjálfum.
Leiðsagðar ferðir
Hægt er að hafa samband við skrifstofu FÍ með því að senda fyrirspurn, senda tölvupóst á fi@fi.is eða hringja síma 568 2533 ef óskað er eftir aðstoð við skipulagningu og leiðsögn í ferð um eða við Laugaveginn.
Landmannalaugar-Þórsmörk
Í leiðarlýsingunni hér að neðan leiðinni lýst eins og hefðbundið er að ganga hana, það er frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Gönguleiðinni er hér skipt upp í fjórar dagleiðir. Enda ættu allir sem eru að ganga Laugaveginn í fyrsta skipti að taka sér góðan tíma til að njóta ferðalagsins og þeirra fjölmörgu útúrdúra sem leiðin býður upp á.
Landmannalaugar-Hrafntinnusker
12 km. 4-5 klst. Hækkun 470m
Þessi fyrsti hluti leiðarinnar er sá stysti í kílómetrum talið en þar sem hækkunin er nærri 500m og þetta er fyrsti dagur göngunnar reynist hann fólki oft dálítið strembinn. Veður er ótryggt á þessum slóðum og oft þarf að ganga hluta leiðarinnar í snjó sem enn eykur á erfiðið. Raunin getur því orðið sú að menn þurfi á öllu sínu að halda.
Fyrst er gengið yfir úfið Laugahraunið, niður af því aftur og síðan upp á hásléttuna utan í hlíðum Brennisteinsöldu. Þar er vert að stöðva og líta í kringum sig enda ægifagurt útsýni, gróður, fjöll og gil í öllum regnbogans litum litum.
Við höldum svo áfram inn á hásléttuna. Landið umhverfis er mjög sundurskorið enda árnar fljótar að éta sig niður í mjúkt bergið. Leiðin fram undan er öll á fótinn þó ekki sé hún ýkja brött. Næsti áfangastaður er Stórihver, falleg gróðurvin þar sem sjálfsagt að stansa, hvíla lúin bein og fá sér bita úr nestisskrínunni. Ríflega klukkustundar gangur er héðan og upp í Höskuldsskála við Hrafntinnusker. Oft er yfir fannir að fara og þar sem hérna er líka mest hætta á þoku, þá er ástæða til að fara varlega og fylgja stikum.
Hrafntinnusker-Álftavatn
12 km. 4-5 klst. Lækkun 490m
Frá Hrafntinnuskeri er haldið til suðurs yfir slétturnar vestur af Reykjafjöllum og stefnan tekin á vestanverð Kaldaklofsfjöll og upp á hrygginn (GPS N 63°55.123' - V 19°09.208) á milli þeirra og Jökulgils. Á þessum hluta leiðarinnar eru nokkrir gilskorningar sem geta virst fullir af snjó en í raun er það einungis þunnt snjólag. Því er nauðsynlegt að gæta sérstakrar varúðar. Betra er krókur en kelda.
Ef veður og skyggni er gott er mælt með því að taka krók og ganga upp á Háskerðing sem er hæsta fjall á þessum slóðum, 1281m. Gangan upp tekur 1-1,5 klst. Gæta þarf þess að oft eru sprungur í fönninni efst undir tindinum, sem sjálfur er þó vanalega snjólaus þegar líða tekur á sumar.
Leiðin liggur nú upp og niður úr nokkrum giljum uns komið er á brún Jökultungna þar sem óviðjafnanlegt útsýni blasir við yfir alla leiðina og jöklana þrjá Tindfjallajökul, Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul.
Leiðin niður Jökultungurnar er talsvert brött og grýtt og eins gott að fara mjög varlega. Neðst í Jökultungunum er komið niður að Grashagakvísl sem oft þarf að vaða en gefur líka ferskt og gott vatn. Þaðan er auðveld og auðrötuð leið til suðvesturs að Álftavatni.
Álftavatn-Emstrur
16 km. 6-7 klst. Lækkun 40m
Frá Álftavatni er haldið í austur frá skálanum eftir stikaðri leið í Hvanngil. Vaða þarf Bratthálskvíslina sem er lítið mál þó oft sé hún köld. Útsýni af brúninni ofan Hvanngils, suður og austur yfir fjöllin er ægifagurt.
Í Hvanngili er hægt að komast á salerni og margir kjósa líka að gista þar í staðinn fyrir Álftavatn. Frá Hvanngili er stutt að göngubrú yfir Kaldaklofskvísl og rétt sunnan hennar er komið að Bláfjallakvísl sem þarf að vaða. Þar þarf oft að fara varlega því áin getur vaxið hratt í rigningum.
Nú liggur leiðin að mestu á akveginum allt að Innri-Emstruá sem er brúuð. Skammt sunnan við hana liggur gönguleiðin út af akveginum til vinstri og suður Emstrur, að mestu um örfoka land. Sé veður þurrt með vindi eru á líkur sandfoki. Gengið er á milli Útigönguhöfðanna og þaðan er um klukkustundar gangur suður í Botnaskála á Emstrum. Skálarnir sjást ekki fyrr en komið er næstum alveg upp að þeim.
Emstrur-Þórsmörk
15 km. 6-7 klst. Lækkun 300 m
Frá Botnum er gengið því sem næst beint í austur, þar sem taka þarf talsverðan krók fyrir Syðri-Emstruárgljúfur sem nær langleiðina að Entujökli. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruá og lofthræddir eiga stundum í erfiðleikum að komast að og frá brúnni.
Leiðin liggur síðan fram með Langhálsi og fram undir ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá. Þar er sjálfsagt að ganga fram á gljúfurbarminn þar sem árnar mætast.
Nú hefst ganga suður Almenninga. Tvö gil verða fljótlega á vegi okkar, Slyppugil og Bjórgil og þar er gott að stoppa og snæða nesti. Eftir að komið er upp úr Bjórgili liggur leiðin um land sem ber þess merki að þar hefur verið meiri skógur fyrr á öldum. Þar heita Fauskatorfur.
Landið breytist þegar kemur fram í Úthólma suður við Ljósá. Upp frá Ljósá heitir Kápa sem er síðasta brattinn á leiðinni. Þegar komið er niður af Kápu blasir Þröngá við sem skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Hana þarf að vaða og er það alla jafna lítið mál en áin getur þó verið nokkuð grýtt.
Nú er komið í Hamraskóga og ekki nema rúmlega hálftíma gangur þar til komið er í Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. Síðasti spölurinn er skemmtilegur, enda hlýleg tilbreyting að ganga í skóglendi.