Laugavegur
Lýsing
Gönguleiðin um Laugaveginn, á milli Landmannalauga og Þórsmerkur, er einhver allra vinsælasta gönguleið landsins og hefur að auki komist á lista yfir fallegustu gönguleiðir í heimi. Landslagið er ótrúlega fjölbreytt, gengið er um litskrúðug líparítsvæði, biksvört hrafntinnuhraun, hvissandi háhitasvæði, spegiltær vötn, svarta sanda og græna skóga.
Ferðafélag Íslands hóf uppbyggingu á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði félagið byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og voru frumkvöðlar innan félagsins áhugasamir um að tengja þau svæði með gönguleið um hina stórbrotnu náttúru sem er á leiðinni.
Gert er ráð fyrir því að allir bóki gistingu í skála eða á tjaldsvæði áður en gengið er af stað. Þannig má koma í veg fyrir yfirfull skálasvæði og stuðla að bættu öryggi og náttúruvernd.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
12km. 4-5 klst. 470 m hækkun.
Landmannalaugar eru einstök náttúruperla. Svæðið er þekkt fyrir litrík líparítfjöll, jarðhitasvæði og fjölbreyttar gönguleiðir. Margir kjósa að gista í Landmannalaugum áður en haldið er af stað í Hrafntinnusker.
Gisting í Landmannalaugum
- Skálinn: Í skálanum í Landmannalaugum er gistipláss fyrir 78. Í Eldhúsinu eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Umhverfis skálann er pallur sem tengir hann einnig við móttökuhúsið og salernishúsið.
- Tjaldsvæðið: Mikilvægt er að tjalda á merktum tjaldsvæðum. Á tjaldsvæðinu eru vaskar þar sem hægt er að vaska upp og ná sér í vatn. Salernishúsið er við móttökuhúsið.
Rusl: Það er hægt að henda rusli í Landmannalaugum.

Fleira sem hægt er að gera í Landmannalaugum
Styttri gönguleiðir:
Laugahraunshringurinn
- Vegalengd: 5 km
- Tími: 2 klst
- Erfiðleikastig: Auðvelt
- Lýsing: Hluti leiðarinnar er einnig hluti af Laugaveginum, svo þessi leið hentar þeim betur sem eru í dagsferð. Þetta er þægileg ganga, lítið um snarpa hækkun og stígurinn víðast hvar góður.
Brennisteinsalda – Viðbót við hringinn um Laugahraun
- Vegalengd: 3,5 km
- Tími: 1 klst
- Erfiðleikastig: Miðlungs
- Lýsing: Margir ganga á Brennisteinsöldu, þegar hringurinn í Laugahrauni er genginn. Af toppi Brennisteisöldu er gott útsýni yfir svæðið.
Bláhnúkur
- Vegalengd: 10 km
- Tími: 3-4 klst
- Erfiðleikastig: Krefjandi
- Lýsing: Af Bláhnúki er einstaklega gott útsýni. Gönguleiðin er vel merkt en er þó brött og krefjandi á köflum.
Lengri gönguleiðir:
Ljótipollur
- Vegalengd: 13 km
- Tími: 5-6 klst
- Erfiðleikastig: Miðlungs
- Lýsing: Ljótipollur er sprengigígur norðaustan við Froststaðavatn. Gönguleiðin að vatninu er auðveld en nokkuð lengri en aðrar leiðir á svæðinu. Háir gígbarmar skreyttir rauðum og dökkum litum umkringja vatnið í botni gígsins
Skallahringur
- Vegalengd: 15 km
- Tími: 6-8 klst
- Erfiðleikastig: Krefjandi
- Lýsing: Skallahringur er ein vinsælasta leiðin í Landmannalaugum. Á leiðinni má sjá allt það helsta sem svæðið hefur upp á að bjóða, litríkt líparít, heita hveri og hraunbreiður. Af toppi Skalla er gott útsýni yfir Jökulgil og Torfajökul.
Heita laugin:
Eftir góðan göngudag er gott að láta þreytuna líða úr sér í heitu lauginni.
Bókun bílastæða í Landmannalaugum
Frá 20. júní til 14. september 2025 þurfa gestir sem koma akandi á eigin vegum á milli kl. 9 og 16 að bóka bílastæði fyrirfram og greiða þjónustugjald áður en komið er í Landmannalaugar.
Nánari upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.

Laugavegsgangan hefst í Landmannalaugum. Þaðan er gengið um Laugahraun og eftir því sem við fjarlægjumst skálasvæðið fækkar fólki á leiðinni.

Leiðin liggur um hlíðar Brennisteinsöldu og þaðan er haldið inn á hásléttuna. Þar er landið allt sundurskorið, enda árnar fljótar að éta sig niður í mjúkt bergið. Næsti áfangastaður er Stórihver en þegar gengið er lengra breytist landslagið aftur.

Á Hrafntinnuskerssvæðinu eru oft miklar fannir og gljáandi Hrafntinna í bland. Hér er mest hætta á þoku og ástæða til að fara varlega og fylgja stikum vel. Héðan er stutt í Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri.
Gisting í Hrafntinnuskeri
- Skálinn: Í Höskuldsskála er gistipláss fyrir 52 í kojum og á dýnum á svefnlofti. Í eldhúsinu eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Umhverfis skálann er pallur sem tengir hann einnig við salernishúsið.
- Tjaldsvæðið: Tjaldað er á snjó eða grjóti. Á tjaldsvæðinu er skjólhús þar sem hægt er að elda og borða. Það er kamar á tjaldsvæðinu.
Rusl: Bera þarf rusl með sér í Álftavatn.

Gönguleiðir nálægt Hrafntinnuskeri
Söðull:
Vegalengd: 1km
Tími: 30-60 mínútur
Erfiðleikastig: Miðlungs
Lýsing: Gengið er eftir ómerktum slóða sem sést vel frá skálanum. Leiðin er stutt og hækkunin jöfn. Þegar á toppinn er komið tekur við fallegt útsýni yfir svæðið umhverfis Hrafntinnusker.
Hrafntinnusker - Álftavatn
12km. 4-5 klst. 490m lækkun.
Frá Hrafntinnuskeri liggur leiðin meðfram hlíðum Reykjafjalla. Á þessum hluta leiðarinnar eru nokkur gil sem yfirleitt eru hálffull af snjó. Hér þarf að gæta vel að sér, því snjórinn bráðnar oft neðanfrá og myndar þunnar snjóbrýr. Veður á svæðinu er síbreytilegt og góður útbúnaður mikilvægur. Mikilvægt er að fylgja stikum vel þar sem skyggni getur breyst hratt.

Leiðin liggur áfram um Kaldaklofsfjöll og fram á brún Jökultungna. Þar er eitt besta útsýni leiðarinnar og í góðu veðri má sjá Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og Tindfjallajökul. Þá tekur við snörp lækkun á grýttum stíg þar sem ráðlegt er að fara varlega.

Neðst í Jökultungum komum við að Grashagakvísl, sem þarf að vaða áður en síðasti spölurinn í Álftavatn er kláraður.
Gisting í Álftavatni
- Skálinn: Í skálunum í Álftavatni er gisting fyrir 72 samanlagt. Í báðum skálum eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Skálarnir eru tengdir með palli, sem tengir þá líka við salernishúsið.
- Tjaldsvæðið: Tjaldsvæðið í Álftavatni er ekki langt frá skálunum. Þar eru vaskar þar sem hægt er að ná sér í vatn og vaska upp. Tjaldgestir og skálagestir deila salernisaðstöðu..
Rusl: Það er hægt að henda rusli í Álftavatni.

Gönguleiðir nálægt Álftavatni
Brattháls
Vegalengd: 5,5 km (báðar leiðir)
Tími: 1,5 - 2 klst
Erfiðleikastig: Miðlungs
Lýsing: Gengið er eftir ómerktum slóða upp á Brattháls. Þaðan er gott útsýni yfir mosavaxnar fjallshlíðar sem einkenna landslagið hér. Einnig sést upp í Hrafntinnusker og yfir á Mælifellssand.
Álftavatn - Emstrur
16 km. 6-7 klst. 40m lækkun.
Þegar haldið er af stað úr Álftavatni þarf snemma að vaða Bratthálskvísl.

Gengið er áfram í Hvanngil. Þar er skáli og tjaldsvæði og margir kjósa að gista þar frekar en í Álftavatni.
Gisting í Hvanngili
- Skálinn: Í skálanum í Hvanngili er gistipláss fyrir 60 manns. Í eldhúsinu eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Við skálann er pallur, sem tengir hann við salernishúsið.
- Tjaldsvæðið: Það er um tvennt að velja þegar tjaldað er í Hvanngili. Það er hægt að tjalda í hrauninu við skálann, þar sem oft fæst gott skjól. Einnig er hægt að tjalda á grasflöt um 200 metra frá skálanum. Á báðum stöðum er gott aðgengi að salerni.
Rusl: Það er hægt að henda rusli í Hvanngili.

Frá Hvanngili liggur leiðin að göngubrú yfir Kaldaklofskvísl. Skömmu síðar þarf að vaða Bláfjallakvísl, sem getur reynst erfið yfirferðar eftir miklar rigningar.

Gengið er um svarta sanda þar til komið er að Innri-Emstruá. Gengið er yfir á brú, en rétt neðan við brúna er skemmtilegur foss. Síðasti spölurinn einkennist af söndum þar sem oft er sandfok og skálinn því kærkomin sjón í lok dags.
Gisting í Emstrum
- Skálinn: Það eru 60 gistipláss samtals í þremur skálum í Botnum. Í öllum skálunum er gistirými, matslaur og eldhús í einu opnu rými. Í eldhúsinu eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Skálarnir eru tengdir með palli, sem tengir þá líka við salernishúsið.
- Tjaldsvæðið: Tjaldað er ofan við skálasvæðið og í dal fyrir neðan. Tjaldgestir deila salernishúsi með skálagestum. Tjaldgestir hafa aðganga að aðstöðutjaldi, þar sem hægt er að elda og borða í skjóli.
Rusl: Bera þarf rusl með sér í Þórsmörk.

Gönguleiðir nálægt Emstrum
Markarfljótsgljúfur
Vegalengd: 4,5 km
Tími: 1-2 klst
Erfiðleikastig: Miðlungs
Lýsing: Gangan að Markarfljótsgljúfri er nokkuð auðveld en gengið er eftir brúnum gljúfursins og mikilvægt að fara varlega. Gljúfrið er um 200 metra djúpt þar sem það er dýpst.
Emstrur - Þórsmörk
15km. 6-7 klst. 300m lækkun.
Lokahluti Laugavegarins liggur um fjölbreytt landslag. Leiðin lækkar fljótt niður að Fremri-Emstruá, sem rennur eftir þröngu gljúfri. Gengið er yfir ána á göngubrú og haldið upp úr gljúfrinu aftur.
Eftir því sem nær dregur Þórsmörk fer að bera meira á gróðri. Tvær ár eru enn ófarnar: Ljósá, sem farið er yfir á göngubrú, og Þröngá, sem þarf að vaða. Þröngá getur verið varasöm eftir miklar rigningar. Loks er gengið um skóga í Þórsmörk þar til leiðin lækkar niður í Langadal, þar sem laugaveginum lýkur.

Gisting í Þórsmörk
- Skálinn: Í Skagfjörðsskála í Langadal er gistipláss fyrir 73. Eldhús og matsalur eru á neðri hæð hússins. Í eldhúsinu eru gashellur, öll áhöld sem þarf til matseldar, borðbúnaður og rennandi vatn. Salernishúsið er skammt frá skálanum.
- Tjaldsvæðið: Í Langadal er tjaldað á grænum flötum, ólíkt öðrum svæðum á leiðinni. Einnig er hægt að tjalda innan um tré. Salernishús er á miðju skálasvæðinu.
Rusl: Það er hægt að henda rusli í Þórsmörk.

Gönguleiðir í Þórsmörk
Valahnúkur
- Vegalengd: 4km
- Tími: 1-2 klst
- Erfiðleikastig: Miðlungs
- Lýsing: Gangan á Valahnúk er nokkuð þægileg. Stígurinn er góður en þó er leiðin nokkuð brött við toppinn. Þegar upp er komið tekur við frábært útsýni yfir Þórsmörk.
Tindafjallahringur
- Vegalengd: 9km
- Tími: 3-4 klst
- Erfiðleikastig: Krefjandi
- Lýsing: Tindafjallahringur er ein vinsælasta gönguleiðin í Þórsmörk. Hún er ekki mjög löng en á henni má sjá allt það helsta sem Þórsmörk hefur upp á að bjóða.
Rjúpnafell
- Vegalengd: 15km
- Tími: 6-7 klst
- Erfiðleikastig: Mjög krefjandi
- Lýsing: Gangan á Rjúpnafell er krefjandi en vel þess virði. Á miðjum Tindafjallahringi er hægt að beygja út af leiðinni og ganga í átt að Rjúpnafelli. Leiðin er brött og hækkunin þónokkur. Af toppi Rjúpnafells er útsýni á Jöklana umhverfis Þórsmörk, upp á Fimmvörðuháls en einnig inn Á Fjallabak.
Réttarfell
- Vegalengd: 8km
- Tími: 3-4 klst
- Erfiðleikastig: Krefjandi
- Lýsing: Krossá er þveruð á göngubrú og gengið í Bása. Þaðan er gengið upp á Réttarfell þar sem við tekur útsýni á Eyjafjallajökul og í Hvannárgil. Einnig er hægt að ganga upp frá Álfakirkju, á móts við Langadal, og niður í Bása og gera þetta að hringleið.

Fimmvörðuháls og algengar útfærslur
Algengast er að ganga Laugaveginn á fjórum dögum. Þá hefur fólk nægan tíma til að njóta náttúru og kyrrðar á leiðinni. Einhverjir kjósa að ganga á þremur, eða jafnvel tveimur dögum. Það er erfiðara en getur verið góður kostur fyrir þá sem hafa stuttan tíma.
Að auki er hægt að bæta við göngu yfir Fimmvörðuháls í beinu framhaldi af Laugavegsgöngu, flestir ganga Fimmvörðuháls þó í hina áttina, og enda í Þórsmörk.
Algengar 4-daga útfærslur
- Dagur 1: Landmannalaugar -- Hrafntinnusker - 12 km
- Dagur 2: Hrafntinnusker -- Álftavatn - 12 km
- Dagur 3: Álftavatn -- Emstrur - 17 km
- Dagur 4: Emstrur -- Þórsmörk - 15 km
- Dagur 1: Landmannalaugar -- Hrafntinnusker - 12 km
- Dagur 2: Hrafntinnusker -- Hvanngil - 16km
- Dagur 3: Hvanngil -- Emstrur - 13 km
- Dagur 4: Emstrur -- Þórsmörk - 15 km
Algeng 3-daga útfærsla
- Dagur 1: Landmannalaugar -- Álftavatn - 24 km
- Dagur 2: Álftavatn -- Emstrur - 17 km
- Dagur 3: Emstrur -- Þórsmörk - 15 km
Möguleg 2-daga útfærsla
- Dagur 1: Landmannalaugar -- Hvanngil - 28 km
- Dagur 2: Hvanngil -- Þórsmörk - 28 km
Bóka gistingu
Gert er ráð fyrir því að allir bóki gistingu í skála eða á tjaldsvæði áður en gengið er af stað. Þannig má koma í veg fyrir yfirfull skálasvæði og stuðla að bættu öryggi og náttúruvernd.
Leiðin er vinsæl og mikilvægt að bóka með góðum fyrirvara.
Senda bókunarfyrirspurn

Hvernig kemst ég?
Landmannalaugar
- Gangan hefst í Landmannalaugum. Algengast er að taka rútu úr Reykjavík en nokkur fyrirtæki bjóða upp á slíkar ferðir.
- Það er jepplingafær vegur í Landmannalaugar. Greiða þarf þjónustugjald þegar ekið er í Landmannalaugar og bóka þarf bílastæði ef komið er á ákveðnum tíma. Sjá meiri upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.
Þórsmörk
- Að göngu lokinni er hægt að taka rútu heim úr Þórsmörk. Nokkur fyrirtæki bjóða upp á rútuferðir.
- Það er jeppafær vegur í Þórsmörk. Það þarf að keyra yfir nokkrar ár og mikilvægt að kunna til verka.
Skógar
- Ef Fimmvörðuhálsi er bætt við gönguna er hægt að taka rútu heim frá Skógum. Einnig gengur strætó þaðan nokkrum sinnum í viku.
Ferðin undirbúin
Laugavegsganga er sannkallað ævintýri. Lykillinn að ánægjulegri ferð er þó góður undirbúningur. Réttur útbúnaður skiptir miklu máli í íslensku veðurfari. Einnig er mikilvægt að skipuleggja ferðina vel og kynna sér aðstæður, til að koma í veg fyrir eitthvað komi á óvart.
Góður undirbúningur felur jafnframt í sér að hafa með sér rétta næringu og neyðarútbúnað.

Útbúnaður
Fatnaður
- Lagskiptur fatnaður: Veður breytist hratt og því gott að hafa fatnað lagskiptan. Einangrandi innsta lag, hlýtt millilag og vatns- og vindhelt ysta lag er heppileg lagskipting.
- Gönguskór: Skór þurfa að vera með grófum, góðum sóla og vatnsheldir.
- Húfa og vettlingar: Gleymist oft en er mikilvægt í breytilegu veðri. Einnig getur verið gott að hafa með sér buff um hálsinn.
- Sokkar: Góðir sokkar skipta miklu máli. Gott er að hafa þá úr ull.
- Vaðskór: Léttir strigaskór eðas sandalar sem þorna hratt eru góður kostur.
Tjaldbúnaður (þegar það á við)
- Tjald: Létt og sterkt.
- Svefnpoki: Þarf að þola kulda vel.
- Göngudýna: Er mikilvægur þáttur í einangrun frá jörðinni.
- Eldunarbúnaður: Prímus, gas og pottasett.
Almennur búnaður
- Bakpoki: 50-60L bakpoki. Í tjaldferðum gæti þurft að velja 60-70L poka.
- Vatnsbrúsi: Það þarf að drekka vel í gönguferðum.
- Matur: Í gönguferðum notum við meiri orku en venjulega. Mikilvægt er að hafa með sér rétta næringu og nóg af henni.
- Rötun: GPS tæki, kort og áttaviti.
- Skyndihjálparbúnaður: Fyrir hælsæri og önnur minniháttar atvik.
- Vasahnífur: Nýtist í ýmislegt.
- Höfuðljós: Það getur orðið dimmt á nóttunni.
- Þurrpokar: Hjálpa við að halda búnaði þurrum.
- Sólgleraugu og sólarvörn: Það rignir oft á fjöllum en sólin skín líka!
- Snyrtivörur: Tannbursti, tannkrem, sápa og handklæði ef stefnt er að því að fara í sturtu. Eyrnatappar geta komið að góðum notum.
- Þurr föt til skiptanna: Það getur rignt mikið. Föt til skiptanna geta bjargað ferðinni ef maður blotnar.
Annar búnaður
- Göngustafir: Hjálpa í bratta og grófu landslagi.
- Viðgerðarsett: Til að gera við rifinn eða laskaðan búnað.
- Myndavél: Til að geyma minningar!
Rötun
Leiðin er stikuð, stígar greinilegir og nokkuð auðvelt er að rata í góðu veðri. Í vondum veðrum og þoku getur allt breyst í einu vetfangi og þá er sérstaklega fyrsti hluti leiðarinnar, frá Landmannalaugum, um Hrafntinnusker og í Álftavatn, erfiður og villugjarn. Þessi hluti leiðarinnar liggur að hluta til á snjó allt árið, gengið er upp í ríflega 1200 metra hæð, uppi á miðju hálendi Íslands þar sem allra veðra er von, þar með talið snjókoma í júlí.

Ár
Vaða þarf að minnsta kosti þrjár ár á leiðinni. Vöðin eru almennt góð en aðstæður geta breyst í miklum rigningum.
Símsamband
Samband á gönguleiðinni er slitrótt. Ekki er hægt að tengjast við netið í skálum okkar.
Hvenær er leiðin opin?
Opnun og aðgengi að gönguleiðinni er mismunandi eftir árferði og helst í hendur við veður, snjóalög og hvenær Vegagerðin opnar vegina inn í Landmannalaugar og að Fjallabaki (F208/F225/F210).
Í meðalári má gera ráð fyrir að leiðin sé opin og fær á milli 25. júní og 15. september.
Að vetri til er þessi leið aðeins fær fyrir vant fólk með 5 árstíða útbúnað. Athugið að yfir vetrartímann ganga engar rútur, hvorki inn í Landmannalaugar né inn í Þórsmörk.
Fróðleikur um Laugaveginn
Ferðafélagið hefur gefið út sérstaka leiðsögubók um Laugaveginn, þar sem hverri dagleið á milli skálanna er lýst sérstaklega en jafnframt veittar upplýsingar um skemmtilega aukakróka og kvöldgöngur út frá skálunum.
Árbók FÍ 2021 fjallar um gönguleiðina frá Landmannalaugum til Þórsmerkur og áfram suður yfir Fimmvörðuháls ásamt aðliggjandi svæðum.
Árbók FÍ 2010 fjallar um friðland að Fjallabaki og þar er að finna margvíslegan fróðleik um Friðlandið almennt og Landmannalaugar sérstaklega.
Nokkur landakort sem sýna Laugaveginn allan hafa verið gefin út, meðal annars sérkortið Þórsmörk Landmannalaugar sem er í mælikvarðanum 1:100 000.
Að auki er hægt að kaupa vandað, teiknað gönguleiðakort af Landmannalaugum og nágrenni.
Síðast en ekki síst bendum við á veglega og afar eigulega ljósmyndabók um Laugaveginn.
Hægt er að kaupa þessar bækur og kort í vefverslun FÍ, á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 og í skála FÍ í Landmannalaugum. Leiðsögubókina um Laugaveginn og sérkortið Þórsmörk Landmannalaugar fæst líka í öðrum gönguskálum á Laugaveginum sjálfum.
Umgengni og náttúruvernd
Allir sem ganga Laugaveginn þurfa að virða almennar umgengnisreglur, ganga vel um náttúruna, fylgja merktum stígum, tjalda á merktum tjaldsvæðum, forðast að ganga á mosa eða viðkvæmum gróðri og skilja eftir sig för í landslaginu.
Góð umgengnisregla er að víkja alltaf a.m.k. 200 m frá göngustíg ef gera þarf þarfir sínar á leiðinni og taka allan pappír með sér í t.d. lokuðum poka.
Það er aldrei of oft ítrekað að ekkert er skilið eftir í náttúrunni, hvorki lífrænar matarleyfar né klósettpappír. Almenna reglan er alltaf sú að skilja ekkert eftir sig nema fótspor á stíg og taka ekkert með sér nema myndir og minningar!
Ferðafélag Íslands hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á virðingu fyrir náttúrunni og starfar eftir skýrri umhverfisstefnu.




