Skáli: Emstrur

Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Suðurland

Emstrur

Skálar Ferðafélags Íslands í Botnum á Emstrum standa við Laugaveginn, eina vinsælustu gönguleið landsins. Þetta eru þrjú lítil sæluhús auk skálavarðahúss.

Smellið á bláa hnappinn hér uppi til hægri til að bóka skálagistingu.

AÐSTAÐA

Sæluhúsin þrjú eru öll eins í laginu. Gengið er inn í forstofu og þaðan inn í svefnrýmið sem hýsir líka lítið, opið eldhús, langborð og stóla. Í öllum skálunum er eldunaraðstaða með gasi, mataráhöldum, borðbúnaði og köldu rennandi vatni. Að auki eru stór kolagrill við hvert hús.

Húsin, sem hvert um sig hýsir 20 manns í 10 tvíbreiðum kojum, eru öll tengd saman og við salernishúsið með trépalli. Góð aðstaða er til að sitja úti á trépöllunum og saman myndar þessi þyrping skemmtilega heild húsa. Á bak við húsin og í dalverpi fyrir neðan þau er lítið tjaldstæði. Salernishúsið er sameiginlegt fyrir skála- og tjaldgesti og þar er hægt að fara í sturtu gegn gjaldi. Vetrarkamar er fyrir neðan salernishúsið.

Daggestir, þ.e. þeir sem hvorki gista í skálanum eða í tjöldum, þurfa að greiða aðstöðugjald til að nota aðstöðuna á svæðinu, til dæmis salerni, bekki, grill og aðra útiaðstöðu. Hægt er greiða aðstöðugjald hjá skálavörðum, kr. 700 fyrir einstakling eða kr. 1.100 fyrir fjölskyldu. Fjölskylda telst foreldrar og börn þeirra undir 18 ára að aldri.

Fyrsta sæluhúsið í Botnum var reist árið 1976, með það í huga að þjónusta göngufólk um Laugaveginn.

OPNUN OG AÐGENGI

Að sumri til er hægt að aka á jeppum að skálunum á vegaslóða sem liggur út frá Emstruleið (F261). Emstruleiðin sjálf liggur frá Fljótshlíðinni og sameinast Fjallabaksleið syðri (F210) við Bláfjallakvísl og Kaldaklofskvísl.

Opnun skálanna yfir sumartímann helst í hendur við opnun Vegagerðarinnar á þessum vegum og fer eftir snjóalögum og ástandi veganna. Í meðalári má ganga út frá því að skálarnir séu opnir frá 25. júní til 18. september.

Skálarnir eru læstir yfir vetrartímann en hægt er að leigja þá og nálgast lykla með því að senda fyrirspurn á skrifstofu FÍ. Athugið að það er aðeins á færi reynslumikils ferðafólks að ferðast um þessar slóðir að vetri til og ef ætlunin er að ganga þá þarf til þess 5 árstíða útbúnað.

NÆSTA NÁGRENNI

Enginn sem kemur í Emstrur ætti að láta hjá líða að ganga að Markarfljótsgljúfrinu. Þetta er stutt ganga en gljúfrið sjálft er hrikalegt og tilkomumikið.

Laugavegurinn liggur framhjá skálunum og á þeirri leið, skammt sunnan Botna er göngubrú yfir Syðri Emstruá.

Upplýsingar

  • GPS staðsetning: N 63°45.980 - W 19°22.450
  • Símanúmer: 499 0647
  • Hæð yfir sjávarmáli: 465m
  • Næsti skáli: Hvanngil og Þórsmörk
  • Aðgengi: Á jeppum
  • Farsímasamband: Á hæð fyrir ofan skálann
  • Skálavörður: Á sumrin

Aðstaða í/við skála

Laugavegur

Hálendið Vegalengd: 54 km Göngutími 4-5 dagar
Skoða