Stefna gegn ofbeldi

Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi 

Stefna

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eru ekki undir neinum kringumstæðum liðin hjá Ferðafélagi Íslands. Starfsfólk sem með framkomu sinni, orðum, viðmóti eða atferli sýnir slíka hegðun gagnvart samstarfsfólki, félögum, þátttakendum í ferðum eða verkefnum, eða viðskiptavinum félagsins, hvort sem um er að ræða einstakt tilvik eða ítrekaða hegðun, telst brjóta gegn þessari grundvallarreglu félagsins. Slík hegðun getur leitt til áminningar, tilfærslu í starfi eða eftir atvikum brottvikningar.

Stefna þessi gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi er unnin út frá lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Stefna þessi gildir um allt starfsfólk Ferðafélags Íslands, þar með talið skálaverði, fararstjóra, starfsfólk á skrifstofu, verktaka, stjórn og sjálfboðaliða.

Markmið

Markmið Ferðafélags Íslands er að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og leggur félagið áherslu á að skapa og viðhalda umhverfi þar sem gagnkvæm virðing, traust, heiðarleiki og faglegt viðmót er í hávegum haft í öllum samskiptum. Allt starfsfólk, viðskiptavinir, félagar og þátttakendur í ferðum og verkefnum skulu njóta jafnræðis án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kyntjáningar, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu í allri starfsemi Ferðafélags Íslands.

Mikilvægt er að allir þeir sem koma fram fyrir hönd félagsins fari fram með góðu fordæmi og stuðli að því með framkomu sinni að skapa menningu þar sem öllum hagaðilum líður vel og gagnkvæm virðing ríkir.

Það er markmið að allir þeir sem starfa eða ferðast á vegum Ferðafélags Íslands þekki boðleiðir ef upp kemur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi og geti brugðist við með réttum hætti ásamt því að vera meðvitaðir um málsmeðferð slíkra mála.

Það er enn fremur markmið að tryggja hagsmuni bæði meints þolanda og meints geranda og að faglega og yfirvegað sé tekið á öllum málum.

Skilgreiningar

Skilgreiningar þessar eru byggðar á reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Einelti

er endurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda viðkomandi ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. Almennt gildir að til að hegðun teljist einelti þarf mynstur endurtekinnar, lítillækkandi eða neikvæðrar hegðunar og þróunar samskipta að vera til staðar og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Kynferðisleg áreitni

er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni

er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi

er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða svipting frelsis.

Tilkynningar

Einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi í ferð, verkefni eða öðru starfi á vegum Ferðafélags Ísland eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun, getur tilkynnt slíkt til fagteymis félagsins í gegnum netfangið fagteymi@fi.is. Teymið samanstendur af þremur utanaðkomandi fagaðilum, lögfræðingi og tveimur sálfræðingum, sem bera ábyrgð á að unnið sé úr slíkum tilkynningum í samræmi við viðbragðsáætlun félagsins.

Sé grunur um að saknæmt brot hafi átt sér stað skal tafarlaust tilkynna það til lögreglu.

 

Viðbragðsáætlun

Félagið hefur sett sér viðbragðsáætlun og skulu allar tilkynningar unnar í samræmi við þá áætlun. Í samræmi við viðbragðsáætlunina skal við meðferð máls sýna varfærni og nærgætni með virðingu allra málsaðila í huga.

 

Samþykkt stefnu

Stefna þessi skal vera aðgengileg öllu starfsfólki, félagsfólki, viðskiptavinum og öðrum sem kunna að sækja ferðir eða aðra viðburði á vegum félagsins. Stefnan skal auk þess vera til umræðu og rædd reglulega á starfsmannafundum og hún kynnt sérstaklega fyrir nýju starfsfólki. Stefnan skal birt á heimasíðu Ferðafélags Íslands.

Stefna þessi skal vera endurskoðuð þegar þurfa þykir en eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og samþykkt á stjórnarfundi félagsins.

Samþykkt á stjórnarfundi Ferðafélags Íslands þann 12. október 2021
Uppfært í janúar 2022
Uppfært í júní 2023