Árbók Ferðafélags Íslands kemur nú út 98. árið í röð. Titill bókarinnar er Fuglar og fuglastaðir. Í henni er farinn réttsælis hringur um landið og fjallað um landsvæði eða afmarkaða staði með tilliti til fuglaskoðunar. Í upphafi bókarinnar er umfjöllun um fuglaskoðun sem áhugamál, fuglaljósmyndun og sögu hennar á Íslandi, þátttöku almennings í fuglatengdum vísindum og fjallað um fuglaskoðun á mismunandi árstíðum. Á víð og dreif í bókinni er síðan umfjöllun um ákveðnar fuglategundir eða hópa fugla og er þar komið inn á vistfræði eða líffræði, stöðu fuglastofna og vernd þeirra.
Fuglar eru áberandi lífverur í náttúrunni en um 20 milljónir þeirra leggja leið sína til Íslands á hverju vori til að koma næstu kynslóð á legg. Fjöldi ferðamanna fylgir í kjölfarið enda er fuglaskoðun vinsælt og vaxandi áhugamál um allan heim. Nánast alls staðar má finna fugla en ákveðnir staðir á landinu veita einstaka eða sérstaka upplifun þegar kemur að fuglum og er þeim gerð góð skil í bókinni. Víða á landinu hefur farið fram uppbygging tengd fuglaskoðun, þar sem reist hefur verið fuglaskoðunarskýli eða -hús, og er fjallað um flesta þá staði þar sem slík uppbygging hefur farið fram. Er þetta í fyrsta sinn þar sem tekið er saman í bók yfirlit um þá staði á landinu sem veita hvað besta upplifun í fuglaskoðun. Fjöldi korta eru í árbókinni og sá Guðmundur Ó. Ingvarsson um gerð þeirra. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir Daníel Bergmann náttúruljósmyndara sem ritaði einnig textann og sá um útgáfuna.
Árbókin er 320 blaðsíður með 410 ljósmyndum og 32 kortum. Í bókarlok er greint frá starfi FÍ og deilda þess á landsbyggðinni á árinu 2024.