Lóan er komin.
Þessi þrjú orð eru ekki lítil í huga Íslendinga því þau tákna sjálft vorið og sumarkomuna.
Lóan og aðrir fuglar setja mikinn svip á náttúru Íslands og þeir eru ríkur þáttur í einkennum árstíðanna. Söngur fuglanna þessa dagana boðar t.d. fyrirheit um gott vor og sólríkt sumar.
Við trúum því Íslendingar.
Á Íslandi verpa um áttatíu tegundir fugla. Líf þeirra snýst að verulegu leyti um flugið, en þessi mögnuðu dýr virðast sigrast á þyngdaraflinu og það heillar auðvitað okkur manneskjurnar sem erum bara með vængi í draumalandinu.
Flug er mjög mikilvæg aðlögun sem gefur fuglum forskot í lífsbaráttunni. Flug auðveldar þeim að forðast hættur og ferðast á milli fjarlægra staða í leit að betri lífsskilyrðum.
„Já, fjölbreytnin í fuglafánunni er mikil og fuglar eru áberandi í lífríkinu. Það tvennt höfðar til mín sem ljósmyndara í leit að mótívum. Fuglar eru líka fagrir og áhugaverðir, flug þeirra og atferli er spennandi að fylgjast með og fanga á mynd.“
Þetta segir Daníel Bergmann ljósmyndari, fararstjóri og rithöfundur en hann er maðurinn á bak við árbók FÍ í þetta skiptið sem kemur út á allra næstu dögum. Hún ber heitið Fuglar og fuglastaðir og er sú fyrsta þar sem Daníel skrifar allan textann og tekur flestar ljósmyndir.
Ekki alveg venjuleg árbók
Í þessari nýju árbók Ferðafélags Íslands fjallar Daníel um fuglaskoðun sem áhugamál, hann er með nokkuð ítarlega umfjöllun um fuglaljósmyndun og fjallar aðeins um hvar og hvenær sé að finna hinar ýmsu fuglategundir til að festa þær á myndflöguna.
„En megin uppistaða bókarinnar eru fuglastaðir og er þá farinn hringur um landið og fjallað um ýmsa staði eða svæði sem ég tel ómissandi fyrir upplifun í fuglaskoðun. Þá tek ég annað hvort landsvæði, eins og til að mynda Snæfellsnes, og lýsi hring um nesið í fuglaskoðun. Eða fjalla um afmarkaða staði eins og sumar úteyjarnar við landið,“ segir höfundurinn.
Daníel segir verkefnið vissulega frábrugðið hefðbundnu umfjöllunarefni árbóka FÍ en það séu þó fordæmi fyrir slíku því árið 1939 hafi komið út fuglabók á vegum félagsins. Sagt er frá þeirri bók í hinni nýju.
„Ég vona bara að þessi tilbreyting falli vel í kramið hjá félögum í FÍ og opni einhverjum betri innsýn í fuglaheiminn.“
Uppáhaldsfuglar og fuglaskoðun
Flestir Íslendingar eiga sér uppáhaldsfugl og sá fugl er fálkinn hjá Daníel. Hann hefur enda skrifað fallega bók um þennan þjóðarfugl Íslands auk þess að birta í henni magnaðar myndir af fálkum sem hann hefur tekið í náttúru landsins. En þótt Íslendingum sé jafnan mjög annt um fugla þá er Daníel ekkert endilega viss um að áhugi okkar á þeim sé eitthvað einstakur. Hann vonast samt til að þessi fallega árbók verði fólki hvatning til að líta meira og oftar í kringum sig í leit að fuglum.
„Það er ekki til skemmtilegra áhugamál heldur en fuglaskoðun og vonandi fara fleiri að lyfta sjónauka og glápa á fugla. Fuglaskoðun sem áhugamál er samt mun vinsælla í Bandaríkjunum og víða í Evrópu heldur en hér. En við höfum sem þjóð vissulega sterka tengingu við fuglana. Það er alls konar þjóðtrú tengd þeim og koma farfuglanna á vorin boðar bjartari og betri tíma. Þá hafa fuglar og egg þeirra verið nýttir sem fæða en það er sem betur fer á undanhaldi því sumir þeirra fuglastofna sem mest hafa verið veiddir eru í vandræðum sökum fækkunar. Þá helst svartfuglar og rjúpa.“
Ómissandi fuglastaðir í háskerpu
Flugið gefur fuglinum mikið frelsi til að ferðast gríðarlegar vegalengdir og þannig tryggja þeir afkvæmum sínum meira öryggi og bætt aðgengi að fæðu. Margir Íslendingar spá í hæfni fugla til að finna aftur gamla hreiðursstæðið sitt í bakgarðinum, eða í skurðinum við sumarbústaðinn. Til að rata á langferðum nota fuglarnir til dæmis segulsvið jarðar, sólarkompás og reynslu um leið og þeir eldast. Til að rata stuttar vegalengdir á milli staða nota fuglarnir minni, alveg eins og við mennirnir sem vitum hvar húsin liggja í tilteknum borgarhlutum. Í þessari grein er þó ekki bara fjallað um fugla sem hafa ratað á milli landa heldur líka þá sem hafa ratað á síðurnar í árbók Ferðafélagsins.
Þegar Daníel er spurður um áherslurnar í nýju bókinni segist hann hafa ákveðið að einblína á þá staði sem hann telur vera ómissandi sem heildar upplifun í fuglaskoðun á landinu og gera þeim nokkuð ítarleg skil.
„Ég verð örugglega gagnrýndur fyrir of mikla umfjöllun um flækingsfugla í þessari bók en við búum hér við fremur fátæklega fuglafánu miðað við víða annars staðar svo þau sem leggjast af alvöru í fuglaskoðun fara fljótt að líta til flækinga til að auka fjölbreytnina og spennuna. Heildar fuglalistinn á Íslandi er kominn yfir 400 tegundir svo það er ýmislegt óvenjulegt sem dúkkar hér upp.“
Talsverð áskorun
Það voru mörg handtökin við nýju árbókina. Að taka ljósmyndir er talsverð áskorun en mikil eftirvinnsla fylgir gjarnan hverri mynd. Þá er oft löng yfirlega yfir texta. Til viðbótar þessu sá Daníel einnig um umbrot nýju bókarinnar. Það voru því langar seturnar fyrir framan tölvuna.
„Ef ég festist of lengi fyrir framan tölvuna þá verð ég viðþolslaus,“ segir hann. „Ég get ekki verið án þess verið að komast út í náttúruna.“
Daníel segir að það hafi verið ákveðin áskorun fólgin í því að hafa allt landið undir í árbókinni. Í hefðbundnari árbókum sé svæðið sem fjallað er um takmarkað og hvað ljósmyndun varðar því aðgengilegra að takast á við verkefnið. Hann segir að val á stöðum sé algjörlega byggt hans eigin reynslu. Sumir kunni að sakna einhverra staða en það verði þá bara svo að vera.
„Aðgengi réði að hluta valinu því ég fjalla ekki um fuglastaði sem er erfitt eða jafnvel ómögulegt að komast á.“
Þar sem Daníel hefur myndað fugla í áraraðir átti hann mikið myndefni af fuglum en hafði hins vegar mismikla reynslu af þeim stöðum sem fjallað er um og þá þurfti að ljósmynda sérstaklega með þessa bók í huga.
„Það var einnig ákveðin áskorun að velja þá staði sem fjallað er um því það eru nánast alls staðar fuglar, allavega á sumrin, og til dæmis eru yfir hundrað svæði á landinu skilgreind sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði.“
En í bókinni er ekki bara linsu og ljósopi beint að fuglum og fuglastöðum, í henni beinir höfundur líka sjónum að brýnni þátttöku almenning í rannsóknum á fuglum. Rannsóknir á þeim eru afar mikilvægar því þær endurspegla heilbrigði vistkerfa. Það er auðvelt að gleyma því að við mennirnir erum allir partur af vistkerfum. Fuglar sýna okkur hvernig breytingar í loftslagi endurspeglast í lífríkinu.
Daníel fjallar líka á auðskilinn hátt um fuglaljósmyndun og hvernig megi nálgast fugla eftir árstíðum. Ritið hefur því margskonar tilgang til viðbótar því að birta ótrúlegan fjölda ljósmynda af fuglum. Þó ekki væri annað gert en að fletta síðunum í þeim tilgangi að skoða myndirnar yrðu margir afar glaðir með efnið og útlitið.
Læknar ættu að ávísa útivist til fólks
En hver er höfundur þessarar nýju árbókar sem birtir slíkan urmul af listfengum ljósmyndum? Ekki bara í þessari nýju bók reyndar því hann hefur tekið myndir fyrir heilar sjö árbækur sem hafa komið út á síðustu árum.
Daníel Bergmann hefur sérhæft sig í fararstjórn fyrir fuglaskoðara og áhugaljósmyndara, mest hér heima en einnig m.a. á Falklandseyjum, á Suðurskautslandinu, Grænlandi og á Svalbarða þar sem hann hefur margoft komist í tæri við hvítabirni.
„Í eitt skiptið vorum við þrír félagar á snjósleðum langt úti á ísilögðum firði að vetrarlagi og fundum þar björn sem var í fyrstu sofandi en fór síðan að sýna okkur óþægilega mikinn áhuga. Þá þurftum við snarlega að hætta að mynda og ég var feginn að vera á sleða sem fór í gang þegar hann átti að fara í gang.“
Daníel býr í Stykkihólmi við Breiðafjörð sem geymir margar af mestu perlum landsins til fuglaskoðunar. Bærinn er umvafinn stórbrotinni náttúru, fjöllum í suðri og hafinu og eyjum allt um kring.
„Svo það er ekki langt að sækja þann frið og endurnæringu sem útivera í ósnortinni náttúru færir manni. Hvort sem það er með sjálfum sér, í félagsskap við aðra eða þá í samneyti við fugla og dýr þá er tengingin við náttúruna algjörlega ómissandi þáttur í að viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði. Mér finnst að læknar ættu í ríkari mæli að ávísa útivist til fólks sem glímir við væga vanlíðan því með henni væru tekin fyrstu skrefin að betri líðan.“
Daníel ólst upp í Breiðholti frá tíu ára aldri. Áhuginn á náttúrunni kviknaði mjög snemma hjá honum því hann man ekkert eftir sér öðruvísi en með augun á umhverfinu og lífríkinu. Þegar Daníel flutti í Seljahverfi var það í útjaðri borgarinnar, og allt um kring var náttúra og fuglalíf.
„Ég lá yfir bókum og tímaritum eins og National Geographic, dáðist að ljósmyndunum og var 12 ára gamall búinn að taka ákvörðun um að náttúruljósmyndun yrði mín vegferð. Ég endaði á þeim stað í lífinu rúmum áratug síðar eftir að hafa fetað þangað krókaleið með mislöngum útúrdúrum.“
Daníel stundaði um tíma nám í Fjölbraut í Breiðholti þar sem nýlega hafði verið sett upp fjölmiðlabraut. Hann starfaði við ýmiss konar ljósmyndun bæði með námi og eftir það. Það varð síðan ekki fyrr en rétt fyrir aldamótin að landslag og náttúra varð megin myndefnið hjá honum og hann fór að vinna markvisst að því að byggja upp myndasafn.
„Ég hef alltaf haft ánægju af því að skrifa og í námi lagði ég áherslu á þann þátt. Ég nýtti námið til að þjálfa ritfærni og málvitund, bæði á íslensku og ensku. Það skilaði sér í því að ég gat boðið tímaritum fullbúnar greinar til birtingar um alls kyns náttúrutengd málefni og það hjálpaði mikið þegar ég var að stíga fyrstu skrefin í náttúruljósmynduninni.“
Ljósmyndarinn í átökum við fuglaáhugamanninn
Daníel segir að í flestum fuglaljósmyndurum eigi sér stað innri barátta áhugamannsins um náttúruna sjálfa og fuglana og ljósmyndarans sem vill fanga þetta á flöguna með myndavélinni.
„Að ljósmynda fugla var það sem minn áhugi snerist eingöngu um til að byrja með en það tók breytingum og ég fór fljótlega líka að fylgjast með þeim án þess að mynda,“ segir Daníel.
„Ef öll athyglin er á að mynda þá missir maður af heildarupplifuninni. Það þarf að leggja reglulega frá sér myndavélina og einfaldlega njóta þess að vera til staðar. Fókusinn á ljósmyndun getur sem sagt þvælst fyrir. Tækjabúnaður er þá á milli manns og fugls og athyglin öll á að ná mynd. Það getur ýmislegt farið framhjá manni við þær aðstæður því það er ekki aðeins verið með athygli á fugli eða fuglum heldur einnig á umhverfinu, birtunni og þeim tæknilegu þáttum sem fylgja ljósmyndatökunni. En sá sem er að mynda dvelur þó yfirleitt lengur með fuglum heldur en sá sem er aðeins að skoða þá. Á þann hátt gefur áherslan á ljósmyndun meiri innsýn í fuglaheiminn og þegar búið er að mynda er alltaf hægt að leggja frá sér vélina og fylgjast bara með. Það er að segja ef fuglinn er ekki floginn.“