„Á Íslandi verpa um 75 fuglategundir en hér er að finna hlutfall sem er frábrugðið flestum löndum Evrópu vegna fjarlægðar frá meginlandinu og einstöku landslagi. Hér er lítið um skóga og háplöntur en mikið um víðerni, eyjar og fuglabjörg sem eru varin frá helstu rándýrum.“
Þetta segir Sölvi Rúnar Vignisson, doktorsnemi og kennari við HÍ, en hann mun leiða fuglaskoðunarferð ásamt fleiri fræðingum um fjöruna í Grafarvogi laugardaginn 23. apríl. Sölvi Rúnar er mikill áhugamaður um fugla og segir að áhuginn hafi kviknað snemma þegar hann skoðaði fugla sem krakki með föður sínum. „Áhuginn kviknaði svo aftur í grunnnáminu við Háskóla Íslands. Rannsóknir hafa enda alltaf heillað mig og þorstinn í að læra meira er óslökkvandi.“
Fuglaferðin er hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands sem kallast Með fróðleik í fararnesti en þessar skemmtilegu göngur hafa farið fram frá aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Þær hafa þó ekki verið mögulegar undanfarin tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins. Fuglaskoðunarferðin hefst við Grafarvogskirkju klukkan 11 þann 23. apríl og þar er hægt að leggja bílum. Hún tekur um tvær klukkustundir.
Hér er Facebook viðburðurinn
„Á þessum tíma eru farfuglarnir okkar að koma frá vetrarstöðvum og að undirbúa sig fyrir varpið. Grafarvogur er þekktur staður fyrir fugla sem eru nýkomnir heim og þeir næla sér þar í fæðu áður en þeir halda á varpstöðvar.“
Sölvi Rúnar segir að líklega muni göngufólk sjá nokkrar tegundir vaðfugla, t.d. jaðrakan, heiðlóur, sandlóur, sendlinga, stelka og tjalda. Hugsanlega verður líka hægt að sjá sandlóur, tildrur og mögulega rauðbrysting sem millilendir hér á leið sinni á varpstöðvarnar. „Þá eru margar tegundir anda sem sækja í sjóinn við fjöruna og ef við erum heppin getum við séð stokkendur, æðarfugla, urtendur, rauðhöfðaendur, toppendur og jafnvel grafendur svo einhverjar séu nefndar.“
Máfar og skarfar sækja líka voginn í leit að fiski t.d. sílamáfur, hettumáfur, svartbakur, stormmáfur og líklega dílaskarfur svo eru spörfuglarnir reglulega í trjánum í kringum göngustiginn eins og skógarþröstur, stari og jafvel svartþröstur og hugsanlega auðnutittlingur.
Fuglar fljúga um loftin og það skiptir þá verulegu máli að geta ferðast hratt á varpstöðvar og hentugri búsvæði eftir árstíma og flúið rándýr. En ef flugið er svona hagfellt dýrum – af hverju fljúga þau ekki öll eins og flugur og fuglar?
„Það finnur allt sitt jafnvægi,“ svarar Sölvi Rúnar með brosi. „Sérhæfing náttúrunnar gerir dýrum kleift að eiga sinn sess í ákveðnu vistkerfi, í tilvikum fljúgandi dýra er það hæfileikinn að geta fært sig úr stað eða veitt sér til matar úr lofti. Grotverur eins og ánamaðkar í mold, sem koma aðeins upp til að makast, hafa lítið með það að gera að fljúga um loftin blá.“
„Það er frábært að vera í HÍ,“ segir Sölvi Rúnar. „Mín upplifun er sú að frelsið og tækifærin sem Háskólinn gefur manni til þess að standa sig vel séu ómetanleg. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það undir nemanum komið að standa sig vel og Háskólans að gefa tækifæri á því að læra eitthvað nýtt og þar tel ég skólann vera að standa sig frábærlega.“
Í stefnu Háskólans, HÍ26, er sérstök áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það er enda löngu ljóst að þekkingarsköpun, rannsóknir og kennsla við HÍ hafa víðtæk áhrif og nýtast m.a. til að styðja við glímuna við loftslagsvá. Þess vegna er afar áhugavert að vita hvort hegðun og útbreiðsla fugla hafi breyst í kjölfar loftslagssviptinga?
„Já, það má segja að útbreiðsla og kerfi farfugla séu sífellt að breytast og þeir virðast flestir vera duglegir að svara slíkum breytingum,“ svarar Sölvi Rúnar.
„Vanalega eru það ungu fuglarnir sem eru að koma nýir inn í stofninn sem verpa fyrr og því drífa þeir áfram breytingarnar á stofninum frekar en að eldri einstaklingar breyti sínu munstri. Á Íslandi höfum við verið að sjá komutíma fugla færast fram á vorið með þessari hlýnun, ásamt því að stofnar eins og jaðrakaninn sem var bundin að mestu við Suðurlandið sést nú í öllum sveitum landsins.“
Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer, með fjaðrabliki háa vegaleysu - í sumardal að kveða kvæðin þín, orti þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Farfuglarnir eru enda einn allra skýrasti vorboðinn á Íslandi og eru auk þess stór hluti af þeirri sérstöku upplifun sem tengist íslenska sumrinu. Það eru fleiri skáld en Jónas sem yrkja til fugla, t.d. Nóbelsskáldið Halldór Laxness sem fæddist einmitt 23. apríl 1902, á þeim degi þegar fuglaferðin verður. Sá dagur er líka dagur bókarinnar og því tilfalið að hafa með sér netta fuglabók til að fletta í og kíki til að auka á upplifun í ferðinni. Vísindafólkið verður líka með mjög öfluga sjónauka sem öll geta notað, en orðið sjónauki kemur einmitt úr smiðju Jónasar Hallgrímssonar og er eitt af ótrúlegum fjölda nýyrða sem spruttu úr hans frjóa kolli.
Skáldsagan Salka Valka eftir Halldór Laxness er í tveimur hlutum og heitir annar þeirra Fuglinn í fjörunni. Haldór orti líka þetta þekkta vorljóð þar sem fuglinn kemur við sögu.
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta langa sumardaga.
Þá er gaman að trítla um tún og tölta á engi,
einkum fyrir unga drengi.
Folöldin þá fara á sprett og fuglinn syngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fingur.
Sölvi Rúnar stundar einmitt rannsóknir á einum slíkum fugli sem syngur stundum hátt og hvellt, sjálfum tjaldinum – þjóðarfugli Færeyinga, en Sölvi er líffræðingur við Þekkingarsetur Suðurnesja, í doktorsnámi við HÍ og á ættir sínar að rekja til Færeyja. Það fer því einstaklega vel á því að hann rannsaki þjóðarfugl Færeyinga.
„Það er frábært að vera í HÍ,“ segir Sölvi Rúnar. „Mín upplifun er sú að frelsið og tækifærin sem Háskólinn gefur manni til þess að standa sig vel séu ómetanleg. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það undir nemanum komið að standa sig vel og Háskólans að gefa tækifæri á því að læra eitthvað nýtt og þar tel ég skólann vera að standa sig frábærlega. Menntun býr til samfélög og það er öllum samfélögum brýnt að hafa sem fjölbreyttasta menntun sama í hvaða flokki hún er eða á hvaða stigi hún er. Háskóli Íslands er ein mikilvægasta stoðin í okkar samfélagi.“
Í stefnu HÍ er áhersla á að gera vísindastarf við HÍ sýnilegra. Sölvi Rúnar segir það skipta miklu að miðla vísindum til almennings. „Best væri ef allt menntakerfið okkar væri virkara í að beita vísindalegri nálgun og rökfræði þegar kemur að flestu ef ekki öllu í okkar samfélagi. Ungmennin eru framtíðin og ef við viljum sjá breytingar og fá svör við stórum vandamálum dagsins í dag þá þurfum við að efla vísindin og örva samspil okkar við náttúruna.“
Þátttaka í göngunni þann 23. apríl er ókeypis og eru öll velkomin. Það þarf ekkert að panta, bara mæta kl. 11 við Grafarvogskirkju og er hægt að leggja bílum við kirkjuna.