Grunnavík í Jökulfjörðum er stórkostlegur staður sem er skýlt af bröttum og háum fjöllum til suðurs og Maríuhorni til norðurs sem halda víkinni eiginlega í greip sinni og ýta frá flestum verstu veðrunum. Í sólskini er þetta eiginlega skjólsæl hitakista með ótrúlegu útsýni til hafs og fjalla.
Ferðafélag Íslands býður upp á göngu um þessa vík nánast á hverju sumri þar sem áhersla er lögð á sögur og fræðslu um náttúru og lífríki. Gist er í upphituðu húsi að Sútarabúðum þar sem höfð er bækistöð.
Þau Steindóra Gunnlaugsdóttir kennari og Halldór Friðrik Þorsteinsson viðskiptafræðingur fóru í sína fyrstu ferð með Ferðafélaginu í fyrra og Grunnavík varð einmitt fyrir valinu.
„Við höfum gengið undanfarin ár með góðum og gönguglöðum vinahópi og töluvert á Hornströndum. Það var einmitt í einni ferðinni, þar sem að við sigldum frá Hesteyri til Bolungarvíkur, að Grunnavíkin blasti svo fallega við okkur í sólarkufli. Hafandi lesið sitthvað um Jón Grunnvíking og séra Jónmund Halldórsson, þá var Grunnavíkin ofarlega á óskalistanum og þegar við sáum svo ferð til Grunnavíkur auglýsta á vef Ferðafélagsins þá þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um.”
Þetta segir Halldór Friðrik þegar hann rifjar upp söguferðina frá því í fyrra en hann segir að Grunnavík sé ekki bara óvenju fögur heldur sé sögunnar vitjað nánast í hverju skrefi. Í Grunnavík er t.d. talsverð saga af báðum Jónum sem Halldór nefnir sem urðu landsfrægir. Jón Ólafsson Grunnvíkingur fæddist árið 1705 og lést árið 1779. Hann fór ungur í fóstur þegar faðir hans lést og gekk til mennta hjá Páli Vídalín lögmanni. Frægð Grunnavíkur Jóns varð einna mest þegar hann varð skrifari hjá Árna Magnússyni handritasafnara í Kaupmannahöfn. Sögur eru til af Jóni þegar hann stóð í ströngu við að bjarga handritum úr brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728. Jón Ólafsson hafði afburða minni og er meðal annars þekktur fyrir að hafa skrifað Heiðarvígasögu upp eftir minni en eina þekkta handrit Heiðarvígasögu brann einmitt í Kaupmannahöfn ásamt mörgum öðrum stórmerkum handritum.
Seinni Jóninn er ekki bara Jón heldur séra Jón og að auki Jón-mundur og var hann Halldórsson (1874–1954). Jónmundur var rammur af afli og mikill vexti og hélt byggðinni í Grunnavík saman allan sinn prestskap með ótrúlegri atorku á andlegum og veraldlegum sviðum. Hann bjó í Grunnavík nánast fram að þeim tíma er byggðin lagðist þar af árið 1962. Sumir tengja þetta tvennt, brotthvarf Jónmundar og andlát byggðarinnar. Miklar þjóðsögur eru sprottnar af Jónmundi sem sumar eru sagðar í söguferðinni um Grunnavík.
Þess sér merki víða í víkinni sem Jómundur fékk áorkað en húsin sem hann lét reisa standa enn, prestbústaðurinn og kirkjan sem opin er göngufólki.
„Það var verulega gaman að skoða kirkjuna og heyra þar inni sögurnar af séra Jónmundi og mannlífinu á svæðinu á fyrrihluta síðustu aldar,“ segir Steindóra.
Í Grunnavík var líka prestur um tíma þriðji Jóninn og var hann Þorláksson (1744–1819), en hann er alltaf kenndur við Bægisá. Jón þessi var líka landsfrægur eins og nafnar hans. Hann var bæði þýðandi og prýðisgott skáld. Hann var líka einn af forsprökkum upplýsingarinnar á Íslandi og fyrstur Íslendinga til að fá ljóð eftir sig prentað á bók í lifanda lífi. Jón Þorláksson er m.a. þekktur fyrir að hafa þýtt Paradísarmissi eftir enska skáldið John Milton. Hann er reyndar líka þekktur
fyrir að hafa misst hempuna í tvígang vegna barneigna utan hjónabands. Sagan segir að Jón hafi komið slyppur í Grunnavík og farið þaðan snauður.
Þau hjónin segjast hafa gengið vítt og og breitt um landið okkar og segjast fara að jafnaði í tvær góðar göngur á hverju sumri.
„Það léttir ýmislegt að kaupa sig inn í skipulagða hópferð með FÍ eins og við reyndum í fyrra. Það er svo margt sem svona gönguferðir gefa. Félagsskapurinn, fróðleikurinn og andleg og líkamleg vellíðan. Svo er bara alltaf gaman að kynnast nýju fólki sem hefur þetta sameiginlega áhugamál. Að hafa sameiginlegan mat þéttir líka hópinn í skálagistingu og býr til góðan anda,” segir Halldór.
Þótt Grunnavík tilheyri ekki Hornströndum er útsýni yfir friðlandið og nánast alla Jökulfirðina af Maríuhorni sem er „toppað“ í ferðinni.
„Grunnavíkin er mikil perla. Það var einstaklega áhrifamikið að ganga upp á Maríuhorn og horfa yfir Höfðaströndina og Jökulfirðina í eindæma blíðu, heiðríkju og logni,“ segir Steindóra.
Þeim hjónum finnst báðum Hornstrandir kynngimagnað svæði, þó ekki væri nema fyrir það hversu afskekktar og ósnortnar þær séu. Þau segja gefandi fyrir göngur um svæðið að lesa sig til um mannlífið sem þarna var en sé nú með öllu horfið.
Þau vitna bæði í frábæra bók Jakobínu Sigurðardóttur, Í barndómi sem fjallar um bernskuárin hennar í Hælavík. Þá nefna þau snilldarsögur um séra Jónmund sem megi lesa í Með hug og orði eftir Vilmund Jónsson fyrrum landlækni sem var einkar ritfær.
Síðasta daginn í ferðinni var gengin gömul póstleið yfir Snæfjallaheiði og niður á Sandeyri á Snæfjallaströnd með gríðarlegu útsýni yfir Ísfjarðardjúp.
„Gönguleiðin til baka yfir á Snæfjallaströnd var eftirminnileg og þar var frá mörgu að segja sem farastjórinn gerði góð skil. Í leiðarlok vorum við hæstánægð með ferðina, fararstjórnina og upplifunina,” segir Steindóra.