Síðastliðinn vetur hófst samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Krabbameinsfélagsins sem fólst í því að bjóða upp á reglulegar gönguferðir fyrir skjólstæðinga Krabbameinsfélagsins. Skjólstæðingar Krabbameinsfélagsins eru þeir sem hafa fengið krabbamein og nánir aðstandendur þeirra. Fjölmargar rannsóknir sýna að útivist og hófleg áreynsla úti í náttúrunni hefur margvísleg jákvæð áhrif á alla sem slíkt stunda og þetta vita félögin sem að þessu standa öðrum betur.
Verkefnið hófst í lok janúar og stóð fram að þjóðhátíðardegi 17 júní eða þar um bil. Það fór þannig fram að þeir sem vildu taka þátt skráðu sig til þátttöku og síðan hittist hópurinn með reglulegu millibili á laugardögum fyrir hádegi en stundum á virkum dögum kl.18.00. Boðið var upp á stuttar göngur sem vörðu í um tvo tíma hvert sinn. Gengið var um ýmsar slóðir í nágrenni Reykjavíkur, sumar þekktar en aðrar minna þekktar. Ólöf Krístín Sívertsen forseti FÍ og lýðheilsufræðingur er mjög ánægð með verkefnið: ,, Þetta hefur gengið mjög vel og myndast sterk vinátta á meðal þátttakenda og gleði, hvatning og stuðningur einkennt hópinn. Samstarfið við Krabbameinsfélagið hefur verið mjög ánægjulegt, hugmyndin kviknaði í göngu á Úlfarsfell og þátttakan varð síðan afar góð og við fengum Pál Ásgeir og Rósu, margreynda FÍ fararstjóra til að leiða göngurnar og við hlökkum til að hefja göngurnar að nýju.
Meðal helstu markmiða Krabbameinsfélagsins er að bæta lífsgæði fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra. Heilnæm útivist getur stuðlað að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferða vegna þess. Einnig er félagsskapur við aðra sem eiga svipaða reynslu að baki mjög jákvæður. Nokkur fyrirtæki, Fjallakofinn, S.sportvörur, Myllan og Útilíf styrktu verkefnið á þessum fyrstu mánuðum. Mikil ánægja var með samstarfið meðal þeirra sem tóku þátt og einnig meðal þeirra sem að því standa. Í krafti þeirrar ánægju og staðfastri trú á lækningamátt og kraft móður náttúru hefur verið ákveðið að halda verkefninu áfram í haust. Ákveðin hefur verið dagskrá sem varir í þrjá mánuði frá byrjun september til desember. Gengið verður á laugardögum milli kl. 10.00 og 12.00. Umsjónarmenn verða þeir sömu og áður en skráningu í verkefnið og nánari kynningu er hægt að skoða á heimasíðu Krabbameinsfélagsins-krabb.is.