Hellingur af spennandi nýjum ferðum í bland við gamla slagara

Tómas með Guðbjörgu Tómasdóttur og Sigrúnu Höllu Halldórsdóttur við Efri-Ljósárfossa
Tómas með Guðbjörgu Tómasdóttur og Sigrúnu Höllu Halldórsdóttur við Efri-Ljósárfossa

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2025 hefur nú litið dagsins ljós. Ferðaáætlunin er kynnt hér á heimasíðu félagsins. Tómas Guðbjartsson formaður ferðanefndar segir að það sé alltaf hátíðarstemming þegar ferðaáæltunin kemur út. ,, ferðanefndin er búin að vinna frábært starf síðan í lok sumars ásamt skrifstofu og gaman að kynna fjölbreytta ferðaáætlun sem að þessu sinni er óvenju vegleg og mikið af ferðum í boði, " segir Tómas

Ferðirnar falla ekki af himnum ofan heldur eru þær ígrundaðar og útpældar. Ferðanefnd FÍ er þar í lykilhlutverki en hún vinnur í nánu samstarfi við starfsfólk á skrifstofu en á líka í samtali við fjölmarga fararstjóra FÍ. Horft er í það sem vel hefur tekist, sumt er stillt aðeins betur af, annað er alveg nýtt og sumt er kannski hvílt.

„Nefndin kallar eftir tillögum um nýjar ferðir frá fararstjórum og stjórn FÍ og metur þær. Ákveðnar ferðir eiga sér fastasess, t.d. á Öræfajökul, á meðan aðrar eru spánýjar, og því merktar sérstaklega í ferðaáætluninni.“

Þetta segir Tómas Guðbjartsson formaður ferðanefndar en hann er  hjartaskurðlæknir og náttúrverndarsinni auk þess að vera vinsæll fararstjóri hjá FÍ. Tómas, sem er gjarnan kallaður Tommi eða Lækna-Tómas, er léttur í lund og mikill sögumaður auk þess sem reynslan er mikil, hvort sem farið er um á tveimur jafnfljótum og vel skóuðum eða með skíðin þrælbundin við þá.

Smelltu á myndina til að skoða ferðaáætlun 2025

 

Nýtt og spennandi í bland við vinsælt og vel reynt

Í undirbúningi fyrir hvert nýtt ferðaár togast á mikilvægið að brydda upp á nýjungum og ná til unga fólksins samhliða því, að halda í hefðina og að hvíla sumt sem jafnvel hefur notið vinsælda lengi. Þetta getur verið átak að finna bestu blönduna. Þegar rýnt er í framboðsrekkann blasir við hellingur af nýjum og spennandi ferðum í bland við gamla og góða slagara.

„Já, einmitt,” segir Tommi og hlær. „Gamlir og góðir slagarar eru t.d. gönguferðir á Hornstrandir, en líka í Lónsöræfi og á Víknaslóðir. Ég má þó til að nefna nýjung þar sem þjóðþekktir Íslendingar með áhuga á gönguferðum leiða kvöld- eða hálfsdags helgargöngur næsta haust með listrænu ívafi. Gönguhraða verður stillt í hóf og nægur tími fyrir sögur og spjall. Þarna verða Katrín Jakobsdóttir, Andri Snær Magnason, Elísabet Jökulsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þorgerður Katrin Gunnarsdóttir og Dagur B. Eggertsson í fararbroddi og ausa úr þekkingarbrunnum.“

Tommi segir að það sé mjög brýnt fyrir félag eins og FÍ að sýna ekki bara vinsælustu svæðin sem hafi náð frægð og frama, heldur að þora að brydda upp á nýjum ferðum, jafnvel um fáfarin landsvæði. Stundum þurfi líka bara kjark til að hvíla vinsælar ferðir í einhver ár, eins og t.d. í Kverkfjöll og á Herðubreið, en hún hafi verið fullbókuð frá upphafi í rúman áratug.

„Ég fór t.d. á Herðubreið í þrítugasta skiptið núna í sumar en næsta sumar ætlum við Salóme sem sáum um það verkefni að bjóða upp á Vestfjarðaveislu í staðinn með spennandi gönguferðum um svæði sem er mér afar kært og ég þekki eins og lófan á mér.”

Augu Tomma ljóma allt í einu – augljóslega að hugsa vestur enda er hann Arnfirðingur og á sér þar griðarstað í Ketildölum þar sem hann hefur gert upp Andahvilft, gamalt hús forfeðra sinna. Þar fléttar hann gjarnan saman fjallafjöri og sjóferðum auk þess að renna fyrir fisk með barnabörnunum. Þá spegla þau sig gjarnan í svartalogninu og skoða marglyttur og krossfiska sem hafa þann háttinn að benda í allar áttir. Það er einmitt í þær allar sem Tommi mun leiða göngufólk um Vestfirðina næsta sumar.

Smelltu á myndina til að skoða Skíðaferðir FÍ 2025

 

Hvernig finnast nýjar staðir – eru þeir til?

Þegar Tommi er spurður út í hvernig Ferðafélagið finni nýja staði, og hvort ekki sé bara búið að kortleggja hvern þumlung á landinu, þá hristir hann höfuðið og svarar snöggt.

„Nei aldeilis ekki!!! Það er mikill metnaður félagsins að bjóða upp á ferðir með nýjum áherslum og á landsvæði sem eru lítt könnuð, eða sem fáir aðrir skipuleggi ferðir á. Í því sambandi má t.d. nefna ferðir á Strandir, á hálendið norð-austanlands og miðhálendið í kringum Vonarskarð. Við leitum að möguleikum með því að reyndir fararstjórar eru jafnvel fengnir í könnunarferðir þar sem lagt er mat á hvernig best er að skipuleggja nýjar ferðir, t.d. hvað varðar lengd dagleiða, gistingu, þörf á trússi o.s.fv. Ég hef sjálfur farið í margar slíkar ferðir, eins og síðasta vor þegar við þveruðum Tindfjöll endilangt á fjallaskíðum i leit að nýrri ferð,“ segir Tommi. Það er einmitt boðið upp á afbrigði af þeirri ferð í nýju ferðáætluninni þar sem Tindfjöllin eru skíðuð í hring.

Tommi ásamt dóttur sinni Guðbjörgu Tómasdóttur í Efri-Hveradal Kverkfjalla.

 

Grænihryggur í hátísku

Við sem höfum lifað nokkra áratugina vitum að margt sem er móðins í dag verður það alls ekki næst þegar við lítum í spegil. Fátt er nefnilega jafn forgengilegt og tískan. Bítlahárið og buxur svo víðar að þær líkjast flöggum komu með stæl… og fóru þannig líka.

En það er staðreynd að svæði komast líka í tísku og fara jafnvel úr henni jafnharðan.

„Já, nákvæmlega,“ segir Tommi og hlær. „Gott dæmi er Grænihryggur en áður hafa Lónsöræfi og Víknaslóðir skorað hátt, líkt og Hornstrandir. Síðan getur komið lægð eins og í Lónsöræfum sem eru sem betur fer að ná sér aftur á strik, enda tvímælalaust með fallegustu göngusvæðum landsins. Ég spái því að Ljósárbotnar verði innan fárra ára nýja stjarnan á gönguhimninum, enda afar fáfarið svæði og spennandi. Þarna bjóðum við Salóme einmitt upp á ferð næsta sumar sem var stútfull sl. sumar.“

 

Afkastamikill göngumaður sem hugar að heilsu allra

Tommi er afkastamikill maður og lætur til sín taka víða. Fyrir nokkrum dögum var gefið úr fræðslukver um reykleysismeðferð og skaðsemi reykinga sem hann reit með Láru G. Sigurðardóttur og Karli K. Andersen læknum. Þar finnur Tommi tóbakinu allt til foráttu sem eðlilegt er því hann fullyrðir að engin uppgötvun mannanna hafi orðið jafnmörgum að aldurtila. Hann heldur því enda fram að ferska loftið á fjöllum, og bara í návígi við borgina sé eitthvað sem við ættum miklu frekar að setja í lungun til að bæta heilsuna og auka lífsgæðin. Þarna talar Tommi ekki út í bláinn því hann er líka lungnaskurðlæknir og þekkir betur en flestir þau áhrif sem gott líferni og vont hafa á þessi líffæri. En Tommi þekkir reyndar líka þunna loftið og hann kleif í haust Matterhorn í Sviss sem margir líkja við Toblerone súkkulaðið og í nóvember gerði hann sér lítið fyrir og kleif Ama Dablam sem er talið eitt af fegurstu fjöllum heims og tæknilega erfitt fjall að klífa. 

Tommi segir að ekkert jafnist á við að klífa krefjandi tinda, jafnvel þótt loftið sé þunnt. „Maður nær að kúppla sig frá amstri dagsins og hlaða batteríin til lengri tíma. Veðrið var frábært líkt og ekki var félagsskapurinn síðri.“

Tommi hélt í þessa för á Matterhornið með Matthíasi Sigurðarsyni tannlækni og fararstjóra hjá FÍ en þegar hann kleif Ama Dablam var hann með sjerpa sér við hlið. 

„Við Matti kynntumst einmitt á fjöllum með FÍ og höfum verið fararstjórar saman í ferðum margsinnis, m.a. í krefjandi fjallaskíðaferðum en einnig í Ljósárbotnum og víðar. Það er eitt af því góða og fallega við útivistina og fjallamennskuna, þú eignast svo góða vini og félaga, jafnvel til lífstíðar,“ segir Tommi sem er mjög spenntur fyrir næsta ferðaári.

,,Við hlökkum til að birta ferðaáætlunina, það er svo mikið af spennandi ferðum sem þá líta dagsins ljós. Vestfjarðaveislan og fjallaskíðaferðirnar eru auðvitað ofarlega í mínum huga,“ segir formaður ferðanefndar FÍ.

Íhugun í stórbrotnu umhverfi