Náttúra Íslands í blíðu og stríðu
Náttúra Íslands er um margt einstök og landslagið fjölbreytt og óvenjulegt. Ástæður þess eru einkum sérstakt samspil jökla og eldvirkni enda er landið eitt það eldvirkasta á Jörðinni. Sérstaða landsins stafar einnig af því að hér er strjálbýlt og að á stórum hluta landsins hefur aldrei verið varanleg búseta. Það á ekki síst við um miðhálendið þar sem mannvirki eru bæði fá og dreifð og er þar að finna mestu víðerni landsins. Þrátt fyrir að náttúran sé hrikaleg, villt og óhamin þá skapar hún stóran og skemmtilegan leikvöll sem sífellt fleiri landsmenn nota til útivistar og erlendir ferðamenn ferðast langar leiðir til að upplifa og skoða.
Í Covid-19 faraldrinum hefur iðkun útivistar í náttúrunni verið bjargvættur margra á tímum lokana og takmarkana. Þeir sem höfðu stundað útivist fyrir faraldurinn voru ekki lengi að hverfa þangað aftur þegar ræktinni var lokað og aðrir sem höfðu ekki sótt mikið í útivist uppgötvuðu gleðina við það að leika sér úti við. Á meðan ferðir til útlanda voru takmörkunum háðar ferðuðust landsmenn sem aldrei fyrr um eigið land, heimsóttu ferðamannastaði sem þeim kannski þóttu áður fullsetnir af erlendum ferðamönnum og uppgötvuðu töfra staðanna á ný.
Á sama tíma og velferð og unaðsstundir Íslendinga byggjast á náttúrunni þá hafa landsmenn líka þurft að takast á við vá af völdum hennar. Ofsaveður, jarðskjálftar, aurskriður og snjóflóð eru hættur sem stöðugt þarf að vera á varðbergi fyrir. Óblíð náttúruöflin minntu jafnframt hressilega á sig þegar gat opnaðist ofan í möttulinn í Geldingadölum snemma á árinu 2021 og kvikan streymdi út. Þrátt fyrir að vera mikil ógn þá laðaði kyngikrafturinn að þúsundir sem vildu sjá og upplifa náttúruöflin í mikilfengleika sínum. Þannig er íslensk náttúra allt í senn: ógn og ánægja.
Ferðafélag Íslands hvetur landsmenn til að ferðast sem mest um eigið land og njóta alls þess sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Með því má jafnframt slá tvær flugur í einu höggi því að auk þess að upplifa íslenska náttúru má þannig einnig spara flugferðir til útlanda og minnka þar með kolefnisfótspor fjölskyldunnar. Gott er fyrir þá sem eru að fara í sín fyrstu ferðalög um náttúruna að gera það undir leiðsögn fararstjóra til að gæta fyllsta öryggis og ekki síður til að fræðast um landið. Í ferðaáætlun FÍ árið 2022 er að finna fjölbreytt úrval ferða þar sem allir ættu að geta fundið ferðir við sitt hæfi. Á vegum félagsins starfa einnig margvíslegir fjalla- og hreyfihópar sem takast á við miserfiðar áskoranir en eiga það sameiginlegt að sækjast eftir að upplifa íslenska náttúru í góðum félagsskap.
Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á fjöllum á komandi ári!
Anna Dóra Sæþórsdóttir
forseti Ferðafélags Íslands