Það er óhætt að segja að Íslendingar séu duglegir að skoða landið þessar vikurnar. Fjölmargir eru búnir að ganga Laugaveginn eða eru á leiðinni þangað og ótrúlegur fjöldi fólks hefur lagt leið sína yfir Fimmvörðuhálsinn. Katrín Klemenzdóttir, skálavörður í Baldvinsskála, taldi hvorki fleiri né færri en 220 Íslendinga á svæðinu síðastliðinn sunnudag.
„Ég vissi varla að það væru til svona margir Íslendingar“ segir hún hlæjandi.
Flestir stoppa á pallinum
Það fer því lítið fyrir einmanaleika hjá Kötu eins og hún er kölluð enda stoppa næstum allir við skálann og spjallia. Hún segir það mjög vinsælt að fá sér nesti á pallinum hjá henni og að margir kaupi sér einhverja hressingu áður en þeir haldi göngunni áfram.
Þetta er fimmta sumarið sem Kata sinnir skálavörslu á þessari vinsælu gönguleið og það er ekki að heyra annað en að hún uni sér vel, enda segir hún staðinn vera yndislegan og segir hann beinlínis gulrótina sína. Á veturna njóti hún stunda með barnabörnunum sínum og að skálavarslan sé hálfgert sumarfrí. Kata er þó á leiðinni í tíu daga frí en mætir galvösk aftur á þennan uppáhaldsstað sinn og tekur vel á móti öllu göngufólki sem á leið hjá.
Næsta ferð okkar yfir Fimmvörðuháls er helgina 1.-2. ágúst en þá er gengið yfir hálsinn og svo gist í Skagfjörðsskála í Langadal að göngu lokinni.
Frekari upplýsingar um Fimmvörðuháls
Ferð FÍ yfir Fimmvörðuháls 1. ágúst