Höldum áfram að fara út að ganga en munum eftir sóttvarnareglum og fjarlægðarmörkum.
Á miðnætti tóku nýjar reglugerðir um takmarkanir á samkiptum í samfélaginu sem kveða á um hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 gildi. Þær gilda til og með 19. október næstkomandi. Hér má sjá um hvaða reglur ræðir:
- Samkomur fleiri en 20 manns eru bannaðar, með nokkrum undantekningum sem verða útlistaðar hér að neðan.
- Líkamsræktarstöðvum er óheimilt að hafa opið.
- Krám, skemmtistöðum og spilasölum er einnig bannað að halda úti starfsemi.
- Gestir á sundstöðum mega að hámarki vera 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
- Áfram gilda eins metra fjarlægðarmörk.
- Við aðstæður þar sem ómögulegt er að viðhafa eins metra fjarlægðarmörk er fólki skylt að nota andlitsgrímu.
Eftirtaldar eru undanþágur frá 20 manna hámarki. Þar gildir sem annars staðar að ef ekki er hægt að uppfylla eins metra nálægðarreglu er skylt að nota andlitsgrímu:
- Störf Alþingis eru undanskilin fjöldatakmörkunum.
- Dómstólar þegar þeir fara með dómsvald sitt.
- Viðbragðsaðilar, s.s. lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og heilbrigðisstarfsfólk, eru undanþegnir fjöldatakmörkunum við störf sín.
- Fjöldatakmörk við útfarir verða 50 manns.
- Verslunum undir 1.000 fm að stærð verður heimilt að hleypa 100 einstaklingum inn í sama rými á hverjum tíma og einum viðskiptavini til viðbótar fyrir hverja 10 fm umfram 1.000 fm en þó aldrei fleiri en 200 viðskiptavinum í allt.
- Sviðslistir: Heimilt verður að halda viðburði þar sem 100 manns koma saman í afmörkuðu hólfi. Sæti skulu vera númeruð, nafn gesta í hverju sæti skráð og öllum áhorfendum ber að nota andlitsgrímu.
- Í framhalds- og háskólum verður miðað við 30 manns.
Aðrar undantekningar:
- Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
- Áhorfendur á íþróttaleikjum: Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.
Sem fyrr leggur Ferðafélag Íslands áherslu á að fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis og um leið aðlögum við okkar starf að nýjum reglum sem hér segir:
Dagskrá í fjalla- og hreyfiverkefnum stendur áfram en hver hópur er takmarkaður við 19 manns auk fararstjóra. Um leið eru fleiri brottfarir í hverjum hóp, eftir stærð þannig að aldrei verða fleiri en 20 manns saman.
Um leið minnum við þátttakendur á sóttvarnir og fjarlægðarmörk.
- Hafið tvo metra á milli ykkar öllum stundum
- Ekki skyrpa eða snýta út í loftið
- Vonandi eru þið öll með rakningarappið uppsett, https://www.covid.is/app/is
- Verið með handspritt í bakpokanum og notið ef þið snertið eitthvað sem aðrir eru að snerta, keðjur, kaðla, klettabrúnir og þ.h.
- EKKI mæta ef þið eruð slöpp eða veik og með einkenni sem eru talin upp á covid.is síðunni.
- ENGAR HÓPMYNDIR
Í þessum Covid aðstæðum er mjög mikilvægt að huga að heilslunni. Þar skiptir regluleg hreyfing, útivera, hollt mataræði, góður svefn og félagsskapur mjög miklu máli. Þar hefur Ferðafélag Íslands hlutverki að gegna og vill sinna því hlutverki eins vel og vel og hægt er.
Við erum öll almannavarnir
Ferðafélag Íslands