Nú hafa verið sendar út kröfur fyrir árgjaldi til allra félagsmanna í Ferðafélagi Íslands. Venju samkvæmt er árbók félagsins innifalin.
Höfundur bókarinnar í ár er Ólafur Örn Haraldsson sem samdi árbók fyrir ellefu árum um Friðland að Fjallabaki. Nú er viðfangsefnið gönguleiðin frá Landmannalaugum til Þórsmerkur og áfram suður yfir Fimmvörðuháls ásamt aðliggjandi svæðum.
Undanfarna áratugi hafa fáar gönguleiðir notið jafn mikilla vinsælda meðal ferðamanna. Auk Ólafs rita sex sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands sérstakan kafla um náttúrufar svæðisins. Ýmsir gamalreyndir göngumenn og fjölfróðir fjallmenn lögðu verkinu einnig lið. Í bókinni er að finna ríflega 200 ljósmyndir sem teknar voru af Daníel Bergmann og 18 uppdrætti teiknaða af Guðmundi Ó. Ingvarssyni.
Rafræn skírteini
Í ár verður í fyrsta skipti gefið út rafrænt félagsskírteini fyrir félaga í Ferðafélagi Íslands. Félagsmenn eiga von á bréfi til nánari útskýringa.
Félagsaðildinni fylgja, sem fyrr, sérstök kjör í skálum og ferðir á vegum FÍ. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu félagsins, www.fi.is, en þar má einnig finna lista yfir samstarfsaðila sem veita afsláttakjör til félagsmanna.