Árbók Ferðafélags Íslands 2021 sem fjallar um Laugaveginn er nú farin í prentun og verður tilbúin til dreifingar í apríl.
Í inngangsorðum höfundar, Ólafs Arnar Haraldssonar segir svo:
Laugavegurinn og nærsvæði hans ásamt Fimmvörðuhálsi hafa verið helstu starfssvæði Ferðafélags Íslands í hart nær hálfa öld. Félagið hefur viljað greiða götu ferðamanna um svæðið þannig að þeir geti kynnst þessu fjölbreytta og fagra landsvæði og notið gönguferðar og góðs aðbúnaðar. Vinsældir gönguleiðarinnar hafa vaxið ár frá ári og hefur félagið mætt því með uppbyggingu á aðstöðu og þjónustu.
Á þessu svæði á Ferðafélagið sæluhús á átta stöðum, í Landmannalaugum, við Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur, í Langadal og Húsadal í Þórsmörk og á Fimmvörðuhálsi. Félagið hefur unnið að endurbótum á gönguleiðinni bæði á stígum og mannvirkjum, gefið út fræðsluefni og veitt margvíslegri þjónustu. Enn fremur hefur félagið skipulagt fjölda ferða um svæðið á eigin vegum og greitt götu annarra sem þar vilja starfa. Það var því komið að því að Ferðafélagið gæfi út árbók um svæðið en áður hafa verið skrifaðar árbækur um afmarkaða hluta þess og voru þær gefnar út árin 1960, 1972, 1976 og 2010. Með þessari árbók er ætlunin að þeir sem vilja fræðast um svæðið geti fundið slíkt efni í einni bók til viðbótar þeim fróðleik sem finna má í fyrri árbókum. Síðust þeirra bóka var gefin út árið 2010 og fjallaði um Friðlandið að Fjallabaki.
Augljóslega er töluverður munur á efnistökum árbókar um óbyggðasvæði og svæði í byggð. Í óbyggð er saga mannvistar ekki mikil og fárra nafngreindra manna er getið. Heimildir og sagnir eru fáorðar og örnefni tiltölulega fá í samanburði við þétt setin og gamalgróin héruð. Flest hafa örnefnin orðið til við fjárleitir og að nokkru leyti vegna ferðalaga. Þetta á ekki síst við um stóran hluta árbókarsvæðisins sem hér er fjallað um. Það var því leitað fanga hjá bændum og öðru þrautkunnugu fólki um sagnir og örnefni og fjallkóngar afréttanna leggja til lýsingar á fyrirkomulagi í fjallferðum og smalamennsku eins og þeim er nú háttað.
Árbók FÍ 2021 um Laugaveginn lýsir gönguleiðinni sjálfri og stóru svæði í nágrenni Laugavegarins. Afmarkast það af Markarfljóti að vestan og Mýrdalsjökli að austan. Með þessu móti getur lesandinn fundið annars vegar tiltölulega einfalda leiðsögn um Laugaveginn og hins vegar ítarlegri fróðleik um nágrannasvæði. Má segja að bókin eigi að vera ferðabók og landlýsing. Náttúrufar óbyggðanna er fjölbreytt og stórfenglegt. Áhersla er því lögð á að lýsa því og sérfróðir náttúrufræðingar Náttúrufræðistofnunar leggja þar til mikinn fróðleik