Árbók Ferðafélags Íslands er komin út, sú 95. í röðinni. Í bókinni er sjónum beint að ysta hluta Snæfellsness.
Höfundurinn, Sæmundur Kristjánsson, fæddist á Hellissandi en ólst að mestu upp í Rifi. Hann starfaði í áratug sem hafnarvörður í Rifshöfn og síðar sem verkstjóri hjá sveitarfélaginu í mörg ár. Á níunda áratug síðustu aldar hóf Sæmundur að segja ferðamönnum til vegar um Snæfellsnesfjallgarð og allt svæðið undir Jökli og árið 2006 lauk hann svæðisleiðsögunámi. Menningarnefnd Snæfellsbæjar útnefndi Sæmund Snæfellsbæing ársins 2016 fyrir skerf hans til kynningar á sögu og náttúru Snæfellsness. Sérkafli er um náttúruna undir Jökli eftir Daníel Bergmann. Eins og Sæmundur á Daníel ættir að rekja til Snæfellsness og þekkir náttúrufar svæðisins vel, ekki síst fuglalífið. Hann er einnig höfundur langflestra ljósmynda í bókinni.
Bókin er 263 blaðsíður með 224 myndum og 12 uppdráttum sem Guðmundur Ó. Ingvarsson dró upp. Bókin er litprentuð með heimildaskrá ásamt örnefna- og mannanafnaskrám. Í bókarlok er greint frá starfi FÍ og deilda þess á landsbyggðinni á árinu 2021. Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason og ritnefnd skipa auk hans Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran. Daníel Bergmann annaðist umbrot og myndvinnslu.
Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út síðan 1928. Í bókunum er oftast lýsing á afmörkuðu svæði og sögulegur og þjóðlegur fróðleikur tengdur því. Nánast öllu landinu hafa verið gerð skil. Árbækurnar eru því efnisrík Íslandslýsing á um tuttugu þúsund blaðsíðum sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem traust uppspretta upplýsinga.
Greiðsluseðill fyrir árgjaldi Ferðafélags Íslands 2022, sem er kr. 8.200, hefur verið stofnaður í heimabanka. Þeir sem greiða árgjaldið geta sótt árbókina í Mörkina 6 strax næstu daga eftir að greiðsla hefur verið innt af hendi og fá þá um leið óvæntan glaðning frá félaginu. Bókin er afhent í anddyri FÍ salarins virka daga, mánud. – fimmtud. frá kl. 12 – 18, frá og með mánudeginum 16. maí til 25. maí. Eftir 28. maí verður bókin send heim til félagsmanna sem greitt hafa árgjaldið.