"Við sóttum veikan einstakling úr gönguhópi á Hlöðufelli í dag, mér skilst að hópurinn sé á vegum FÍ. Mér finnst vert að hrósa þeim sem voru á vettvangi. Undirbúningurinn hefur greinilega verið góður því í hópnum var VHF talstöð með neyðarrás 16, auk einhverskonar varsekks sem hinn veiki var í þegar við komum. Einhver úr hópnum fór fram á fjallsbrúnina og gaf staðsetningu til kynna með því að veifa örmum og auðveldaði þannig að finna staðinn neðanfrá. Þú getur allavega skilað til fararstjóranna að okkur þyki þetta fagmannlega að verki staðið."
Þetta er brot úr skeyti sem Ferðafélag Íslands fékk frá áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar nýlega. Þar er borið lof á fararstjóra Ferðafélags Íslands fyrir fagmannleg vinnubrögð á vettvangi þegar þyrlan sótti sjúkling á Hlöðufell 28. ágúst s.l.
Atvikið sem vísað er til gerðist í fyrstu fjallgöngu haustsins hjá FÍ Alla leið. Gengið var á Hlöðufell. Fyrst liggur leið upp snarbrattar skriður en þegar komið var upp á öxl fjallsins fór einn farþega að finna fyrir veikindum. Hjalti Björnsson og Guðjón Benfield fararstjórar urðu eftir hjá sjúklingnum ásamt Birni Loga Þórarinssyni lækni sem er einn þátttakenda í FÍ Alla leið. Þrír aðrir fararstjórar, Páll Ásgeir, Rósa Sigrún og Örlygur Steinn héldu áfram með aðra í hópnum og stefndu á toppinn.
Þótt einkenni sjúklings væru um margt ódæmigerð varð fljótlega ljóst að staðan var alvarleg og kallað var eftir hjálp. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang og beið smástund við fjallsbrún áður en hún gat lent en veður var ekki sérlega gott, gekk á með regnskúrum og strekkingsvindur var úr suðaustri.
"Farþeginn okkar var hálf tuskulegur sem er mjög óvanalegt fyrir hann, var ekkert að jafna sig þrátt fyrir að hann væri búinn að sitja og síðan liggja og hvíla sig. Við bjuggum um hann til að koma í veg fyrir ofkælingu og heyrðum svo loks í þyrlunni, fyrir neðan fjallsbrún. Þeir sáu okkur ekki vegna skýjafars svo ég fór að brún og veifaði litríkum poka. Þá sáu þeir okkur og beindi ég þeim að heppilegum lendingarstað," sagði Guðjón Benfield fararstjóri í samtali við heimasíðuna.
Sjúklingurinn var fluttur á spítala og beint á hjartadeild þar sem hann gekkst undir aðgerð og er líðan hans góð eftir atvikum þegar þetta er ritað.