Brosmildi formaður byggingarnefndar ætlar að byggja á Laugaveginum

Sigurður á tindi Valahnúks í Þórsmörk
Sigurður á tindi Valahnúks í Þórsmörk

Brosmildi byggingastjórinn ætlar
að byggja á Laugaveginum

Bjartur og brosmildur og einstaklega afkastamikill, eiginlega gustmikill og ef hann stendur í hópi þá nær hausinn upp úr þvögunni og þá skín í tennurnar, bæði brosið og glettnina í augunum. Þetta er Sigurður Ragnarsson formaður byggingarnefndar Ferðafélagsins og hjá honum og hans teymi er alltaf nóg að sýsla. Siggi Ragg, eins og hann er gjarnan kallaður, hefur bætt þessu brýna verkefni ofan á mikla vinnu sem stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka, eða ÍAV. Og svona til að hafa örugglega nóg af skemmtilegum verkefnum, þá var Siggi líka kjörinn í stjórn FÍ fyrir þremur árum.  Seta í stjórn og nefndum FÍ er sjálfboðaliðastarf og segir Sigurður afar ánægjulegt að geta látið gott af sér leiða hjá félagi eins og FÍ. 

Byggingarnefnd FÍ hefur á sínum herðum allt viðhald og endurbætur á öllum fimmtán skálasvæðum FÍ ásamt því að hafa forgöngu um nýbyggingar á vegum félagsins. Viðhald og endurbætur eru umfangsmiklar bæði sökum þess að um er að ræða marga skála, sem standa sum á svæðum þar sem veður eru válynd og oft um miklar vegleysur að fara.  Margir skálar félagsins voru byggðir af sjálfboðaliðum um miðja síðustu öld og eru barn síns tima og þarfnast endurnýjunar.  

„Tímabilið til endurbóta og viðhalds nær kannski til nokkurra mánuðua, og sums staðar varla það, vegna staðsetningar skálasvæðanna og aðgengis að þeim. Því er mikilvægt að skipuleggja starfið vel til að takmarkaður tími nýtist sem best,“ segir byggingastjórinn.

Þörf á endurnýjun á nokkrum stöðum


Sigurður og Þórdís Lára rýna í fjallaheiti til allra átta.  

Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að það sé gott að hafa reynslubolta í leiða þessa byggingarvinnu en Siggi var framkvæmdastjóri þess mikla verkefnis sem fól í sér byggingu Hörpu. Enginn smáskáli það mikla hús við Reykjavíkurhöfn.

Skálar Ferðafélagsins hafa nú aðeins aðra náttúru segir Siggi og hlær aðspurður um þessa tengingu, Harpa og háfjallaskáli!!

„Vegna skálanna og margs annars í starfinu skiptir Ferðafélagið mjög miklu máli fyrir bæði félagsmenn og raunar alla Íslendinga. Skálarnir gegna lykilhlutverki í því að gera fólki kleift að kynnast landinu, stunda útivist sem ekki væri möguleg án þeirra og þar með upplifa stórkostlegar náttúruperlur. Skálarnir gegna líka mikilvægu öryggishlutverki í heimi þar sem útivist verður æ ríkari hluti af lífi fólks,“ segir Siggi og bætir því við að FÍ stuðli ekki bara að ferðalögum á Íslandi heldur greiði hreinlega fyrir þeim með skálauppbyggingunni „og auðvitað með því að bjóða upp á skipulegar ferðir af öllum stærðum og gerðum.“

Á nokkrum skálasvæðum er staðan orðin sú að hefja þarf endurnýjun fljótlega, jafnvel strax. Mest er þörfin á hinum sívinsæla Laugavegi, segir Siggi, og bætir því við að þar hafi félagið sett sér það markmið að endurnýja a.m.k þrjá skála á komandi árum. Þetta er ekki lítið verk.

Ferðafélagið hóf framkvæmdir á Laugaveginum upp úr 1975. Þá hafði FÍ byggt upp aðstöðu í Landmannalaugum og Þórsmörk og forsjálir félagsmenn töldu þá brýnt að tengja þau svæði með gönguleið sem birtir þá miklu náttúruperlufesti sem blasir hvarvetna við á leiðinni. Óhætt er að klappa áfram og lengi fyrir þessum frumkvöðlum.

„Fyrstur í röðinni á Laugaveginum í framkvæmdum er Skagfjörðsskáli í Langadal í Þórsmörk,“ segir Siggi. „Eftir mikla umræðu innan félagsins var ákveðið að reisa nýjan skála á stað þess gamla sem reistur var 1954. Nýi skálinn á að vera í sömu mynd og sá gamli að utan en að innan eru gerðar fáeinar breytingar til úrbóta í ljósi áratuga reynslu af rekstri skálans. Staðan á málinu er sú að lokið hefur verið við hönnun skálans eftir að bygginganefndarteikningar hans voru lagðar inn í upphafi árs 2023. Næstu skref eru að vinna í fjármögnun og velja hvaða leið verði valin við framkvæmdina. Við vonumst til að nýr skáli taki við af þeim gamla formlega vorið 2026.“

Reynslubolti með brennandi áhuga á náttúrunni

Skagfjörðsskáli í Langadal - stefnt er að því að nýr skáli verði tekinn í notkun sumarið 2026. 

Siggi Ragg er verkfræðingur með gráður frá HÍ og DTU í Danmörku sem hjálpar mikið ofan á reynsluna þegar hann vinnur fyrir FÍ. Hann er líka með eina virtustu vottun sem veitt er alþjóðlega til verkefnisstjóra. Og svo bætist við brennandi áhugi hans á náttúrunni og á ferðalögum um landið. Siggi hefur notað öll sumur frá unglingsaldri til að þvælast um landið sitt og í bernsku ferðaðist hann með foreldrum sínum. Þórsmörk og friðlandið að fjallabaki voru með því fyrsta sem hann sótti heim þegar hann fór að skottast sjálfur um óbyggðirnar.

„Allar andstæðurnar sem maður upplifir á þessu svæði gera það alveg sérstakt. Fjöll, jöklar, fossar, ár, gróðursnauð, mikill gróður, jarðhiti og mikil litbrigði svo eitthvað sé nefnt,“ segir Siggi og það er auðvelt að sjá á ljómanum í augunum að hann sér þetta allt fyrir sér.

„Ég hef ekki upplifað svæði annars staðar í heiminum sem ég hef ferðast til sem bjóða upp á þennan fjölbreytileika og andstæður.“

Svona lýsing er eiginlega skáldlega skemmtileg hjá FÍ formanni byggingarnefndar FÍ  og hægt að grípa orðin hans og negla saman í ferskeytlu.

Fjöll og jöklar, fossar, ár.

Fögur brigði lita.

Gróðurleysi, himinn hár,

heiðar með jarðhita.