Ferðaáætlun FÍ 2021 er nú í lokavinnslu. Ferðanefnd félagsins undir forystu Sigrúnar Valbergsdóttur hefur unnið að ferðaáætluninni frá því í byrjun september hefur nú skilað áætluninni til skrifstofu til lokafrágangs. Heiðrún Meldal ferðafulltrúi segir að ferðaáætlunin verði stútfull af spennandi ferðum, verkefnum og námskeiðum. ,,Þetta lítur mjög vel út og mikið af nýjum ferðum og verkefnum og eins þessar gömlu góðu sígildu ferðir. Vinnan gengur vel og þetta er mjög skemmtilegt. Það munu allir finna eitthvað við sitt hæfi, það er næsta víst, " segir Heiða sem hefur umsjón með ferðaáætluninni á lokastigum.
Að venju má finna ferðir um allt land í ferðaáætluninni; sumarleyfisferðir, helgarferðir og dagsferðir. Einnig fjalla- og hreyfiverkefni sem verða fleiri og fjölbreyttari en áður. Þá má nefna námskeið af ýmsu tagi; gps námskeið, skyndihjálp, fyrstu hjálp á fjöllum, vaðnámskeið, námskeið í vetrarfjallamennsku og fleira. Þá verða Ferðafélag barnanna og FÍ Ung með glæsilega dagskrá og ferðum deilda um allt land eru gerð góð skil.
Ferðaáætlun FÍ 2021 birtist á vef félagsins í desember og segir Heiða að besta jólagjöf ferðafélagans sé gjafabréf í ferðir með félaginu. Gjafabréf í ferðir má kaupa á heimasíðu FÍ, gjafabréf allt frá kr. 5000.