Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2022
,,Það er alltaf hátíð hjá okkur í Ferðafélaginu þegar ferðaáætlun kemur út. Nú kemur hún út á starfrænu formi í annað sinn og er birt á heimasíðu félagisns og hefjast þá um leið bókanir í ferðir og verkefni, “ segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar og varaforseti FÍ.
,,Líkt og áður er ferðaáætlunin byggð upp á sígildum ferðum og nýjum í bland, dagsferðir, helgarferðir og sumarleyfisferðir, lýðheilsuverkefni, fjallaverkefni, hreyfihópar, Ferðafélag barnanna og FÍ Ung. Það eiga allir að geta fundið ferðir við sitt hæfi,” segir Sigrún um nýútkomna Ferðaáætlun FÍ 2022.
Að þessu sinni verður ferðaáætlunin ekki prentuð og var stjórn félagsins þar fyrst og fremst að horfa á umhverfissjónarmið en einnig til þess hve birting á samfélagsmiðlum er orðin sterk og stór hluti af hegðunar- og neyslumynstri fólks. Stjórn FÍ hefur nú nýlega í stefnumótunarvinnu samþykkt að félagið skuli vera í fararbroddi í stafrænum lausnum og birtingu. Að sama skapi býður netbirting upp á meiri sveigjanleika eins og reynslan sýndi við þær sérstöku aðstæður sem voru á árinu sem er að líða. Flettiforrit með ferðaáætluninni og prentvæn pdf skjöl til heimaprentunar eru að finna á heimasíðu FÍ. ,,Þetta er mjög spennandi, aðstæður í Covid kenndu okkur mikið, meðal annars meiri birtingu á samfélagsmiðlum og sveigjanlegri vinnu með ferðir og verkefni. Það hefur gefist mjög vel og við munum halda áfram á þeirri leið,” segir Sigrún.
Sígildar ferðir og nýjar í bland
Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ.
Sigrún segir áherslurnar geta verið nokkuð breytilegar en þó séu sígildar og vinsælar ferðir alltaf endurteknar eins og á Hornstrandir, í Lónsöræfi og að sjálfsögðu Laugavegsgöngur. Þá eru einnig nokkrar dagsferðir sígildar eins og Leggjabrjótur á 17. júní og Síldarmannagötur að hausti.
„Svo eru geysivinsælar fjallaskíðaferðir, ekki alltaf þó á sömu svæði og sama má segja um Sögugöngurnar sem eru í áætluninni, en eru alltaf á nýjum slóðum.“ Sigrún bendir líka á að á meðan sum landssvæði komist í tísku detti önnur út og að þau fylgist vel með því. „Sérstök ánægja hefr verið að fylgjast með áhuganum á Ferðafélagi barnanna. Þar er unnið sannkallað grasrótarstarf og eftirspurn langt umfram framboð“.
Eins ódýrt og hægt er
Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag. Markmið félagsins er m.a. að hvetja landsmenn til að ferðast um landið og kynnast náttúru þess . „Við reynum að hafa verð ferðanna eins hagstætt og hægt er, minnka trúss og ferðakostnað eins og hægt er. Við horfum til þess að allt landið er undir í þessari áætlun og sömuleiðis fylgjumst við vel með þegar út koma bækur með leiðarlýsingum á svæðum sem lítið hefur verið horft til. Svo eru félagar í FÍ á öllum aldri og það þarf að vera mikil fjölbreytni i ferðaframboðinu. Allt frá léttum dagsferðum yfir í fjögurra skóa langar sumarleyfisferðir, þar sem gengið er með allt á bakinu og gist í tjöldum yfir í ferðir með rútu þar sem gist er í uppbúnum rúmum á gistihúsum og allt þar á milli.“
Nýjungar nauðsynlegar
„Það er alger nauðsyn að bjóða upp á nýjungar og á það leggjum við mikla áherslu. Það eru yfirleitt 30-40% nýjar ferðir í áætluninni hverju sinni.“
„Það er öflugt teymi sem kemur að því að setja saman Ferðaáætlun FÍ. Teymið samanstendur af ferðanefnd og starfsfólki skrifstofunnar sem heldur utan um ferðarekstur félagsins. Þetta teymi er gríðarlega reynslumikið og víðförult og hefur því góða yfirsýn og þekkingu á landinu öllu, ásamt öllum okkar fararstjórum sem leiða ferðirnar. Þeir eru auðlind.“ „Fjallaverkefnin, lýðheilsuverkefnin og hreyfihóparnir hafa sína föstu umsjónarmenn sem vinna þétt með skrifstofunni. Við byrjum þessa vinnu um leið og sumarvertíðinni er að ljúka, þá koma í ljós viðtökur áætlunar síðasta árs og það er í raun það fyrsta sem lagt er til grundvallar fyrir næstu áætlun. Auk eigin hugmynda leitum við eftir tillögum frá fararstjórum og oft berast tillögar að ferðum frá félögum í FÍ. Þetta er alltaf jafn spennandi vinna og sumarið er ekki búið þegar plönin fyrir næsta sumar verða til.“
Ferðir deilda FÍ
Sigrún segir deildir Ferðafélagsins um allt land skila sínum tillögum að áliðnu hausti á sama tíma og Ferðanefndin er að ljúka störfum og allar ferðir deilda eru að finna í áætluninni að venju. „Út um allt land eru skapandi kraftar að störfum, sem gjörþekkja sína heimahaga og nærliggjandi óbyggðir og bjóða uppá úrval góðra ferða, jafnvel allan ársins hring“